Oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórn, verðandi borgarstjóri og fyrrum sjónvarpsstjarnan Einar Þorsteinsson, var gestur í Silfrinu í morgun.
Hann tjáði sig um það sem honum finnst hafa verið samfélagsmiðlaherferð sem sett var á laggirnar til höfuðs honum er hann stýrði Kastljósi, en þetta kemur fram í DV.
Einar vísaði til umdeilds viðtals sem hann tók við Kára Stefánsson árið 2021:
„Það var bara sett af stað ákveðin herferð gegn mér af því ég var gagnrýninn á ákveðnar aðgerðir,“ segir Einar en þess má geta að viðtalið var tekið í miðjum Covid-faraldrinum.
Í máli Einars kom fram að Facebook-færslu sem var skrifuð gegn honum hafi verið deilt þúsund sinnum á einungis einni klukkustund:
„Ef fólk telur hagsmunum sínum ógnað þá sækir það fram,“ sagði hann og benti á að embættismenn og stjórnmálamenn væru oftlega sett undir gífurlegan þrýsting frá hagsmunasamtökum sem og einstaklingum sem nýttu sér samfélagsmiðla til að breiða út boðskap sinn.
Kemur fram á DV að tilefni orða Einars var umræða í þættinum um áform Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra að skylda kjörna fulltrúa sem og opinbera starfsmenn til að sækja námskeið um hatursorðræðu; hyggst Katrín leggja fram þingsályktunartillögu um þetta.