Taco er frábær réttur sem sameinar sælkerabragð, hollustu og einfaldleika og því tilvalið að bjóða upp á hann í miðri viku. Í þessari uppskrift eru tígrisrækjur en þeim má auðveldlega skipta út fyrir annan próteingjafa.
TÍGRISRÆKJUR
fyrir 3-4
500 g stórar tígrisrækjur
1 msk. sjávarsalt
1 dl kryddlögur (sjá hér fyrir neðan)
Setjið rækjurnar í kryddlöginn og látið standa í 1 klst. Setjið á grillpinna, saltið og grillið í 4 mín. á hvorri hlið eða þar til þær eru orðnar bleikar, þéttar í sér en gegnsæjar í miðjunni. Það er mjög gott að setja þær á mjúkt lítið taco með klettasalati chili-sósu, pikkluðum rauðlauk, lárperu og sýðrum rjóma.
Kryddlögur
börkur af 3 límónum
4 rauð chili-aldin
1 hvítlaukur, afhýddur
1 msk. kumminduft
½ msk. nýmalaður svartur pipar
3 dl bragðlítil olía
2 msk. kóríanderfræ (má sleppa)
Setjið allt í blandara og blandið vel. Þetta er svolítið stór uppskrift en kryddlögurinn geymist í kæli í um 2 vikur. Hann hentar á mjög margt, gefur smávegis hita og gott bragð. Athugið að það er ekki salt í kryddleginum og því er nauðsynlegt að salta rétt áður en þið grillið.
Umsjón / Gunnar Helgi Guðjónsson
Ljósmyndari / Aldís Pálsdóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir