Föstudagur 27. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Crossover, alþjóðleg hönnunarsýning í London – Hlutverk hönnuðarins í samfélagi framtíðarinnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Aðsend grein frá Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands

Alþjóðlega hönnunarsýningin Crossover opnar 19. september næst komandi í Old Truman Brewery í London sem hluti af London Design Fair. Á Crossover sýna listamenn frá Belgíu, Danmörku, Frakklandi, Finnlandi, Ítalíu, Mexíkó, Svíþjóð, Sviss, Tyrklandi, Noregi og Íslandi. Átta hönnuðir frá Íslandi taka þátt í sýningunni en sýningarstjórar íslenska hlutans eru þær María Kristín Jónsdóttir og Hlín Helga Guðlaugsdóttir.

Íslensku hönnuðirnir sem taka þátt eru Rúna Thors fagstjóri vöruhönnunar við Listaháskóla Íslands og Hildur Steinþórsdóttir stundakennari við skólann en samstarf þeirra gengur undir nafninu TOS, Tinna Gunnarsdóttir prófessor í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands, Björn Steinar Blumenstein fyrrum nemandi og núverandi stundakennari við skólann, Theódóra Alfreðsdóttir stundakennari við Listaháskóla Íslands, Stúdíó Flétta sem samanstendur af Birtu Rós Brynjólfsdóttur og Hrefnu Sigurðardóttur fyrrum nemendum við LHÍ, 1+1+1  sem er samstarf Hugdettu frá Íslandi, Petru Lilju frá Svíþjóð og Alto+Alto frá Finnlandi, Ragna Ragnarsdóttir og Studio Hanna Whitehead.

Hönnunarfyrirtækið Adorno stendur fyrir sýningunni en Adorno var stofnað í Kaupmannahöfn árið 2017 af þeim Kristian Snorre Andersen og Martin Clausen. Adorno leggur upp með alþjóðlegt samstarf sjálfstætt starfandi hönnuða frá ólíkum löndum og skoðar samband hönnunar, handverks og lista.

Í fréttatilkynningu frá Adorno í tengslum við sýninguna er tekið fram að með henni sé lögð áhersla á að auðvelda samtal milli ólíkra menningarhluta heimsins; samtal sem á sér upphaf í hönnun og ákveðinni fagurfræði en kemur óhjákvæmilega til með að hafa áhrif á menningarlega og samfélagslega þætti síðar meir. Með stefnumóti alþjóðlegra hönnuða sé hægt að gefa til kynna strauma og stefnur í hönnun ólíkra landa og endurspegla þannig stöðu hönnunar og handverks samtímans. Þá er einnig talað um vöruna sem safngrip, en undirtitill sýningarinnar er fjölmenningalegt hönnunarferðalag safngripa (e. A cross-cultural collectible design journey). Mikil áhersla er lögð á samtal lista, hönnunar og handverks á sýningunni og áhersla á skapandi þátt hönnunnar. Hugmyndafræði verkanna og hönnunarferlið sjálft er þannig megininntak sýningarinnar en ekki hefðbundin hlutahönnun sem styðst við fjöldaframleiðslu og er miðuð við fjölda neytenda.

Þessi nálgun Adorno á hönnun endurspeglar þær áherslur sem sjá má á hönnunarhátíðum og í hönnunarháskólum víða um heim, meðal annars í Listaháskóla Íslands en á námsbraut í vöruhönnun er mikil áhersla lögð á að skoða ferli sem liggur að baki vöru, möguleg samfélagsleg áhrif sem hönnun getur haft og hvernig nýta megi hönnun til að koma ákveðnum skilaboðum á framfæri eða vekja fólk til umhugsunar um daglegt líf og hvernig hversdagslífið er ætíð hluti af stærra kerfi.

- Auglýsing -

Nemendur kynntir fyrir fjölbreyttum tækjum og tólum

Á námsbraut í vöruhönnun er lögð áhersla á að kynna fyrir nemendum fjölbreytt tæki og tól sem þau geta nýtt til að móta og miðla hugmyndum sínum á skapandi hátt. Meðal þess sem nemendur á námsbrautinni hafa fengist við á undanförnum árum eru verkefni á sviði matarhönnunar, efnisrannsókna og staðbundinnar framleiðslu. Þá er lögð áhersla á að nemendur fái þjálfun við að vinna hönnunarverkefni í samstarfi við stofnanir, félög og samtök í samfélaginu og hafi þannig bein áhrif inn í samfélagið, jafnvel á meðan á námi stendur. Þegar nemendur fá tækifæri til að kynnast ólíkum efnum, tileinka sér nýja tækni, endurskoða ferla og hanna kerfi eða hluti inn í ákveðið samhengi öðlast þeir færni til að nýta hönnun sem afl til umbóta og í samhengi við umhverfi sitt.

Sigrún Alba Sigurðardóttir, deildarforseti hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands segir meðal annars: „Á Íslandi eru möguleikar til fjöldaframleiðslu takmarkaðir en margir ónýttir möguleikar í staðbundinni framleiðslu. Á námsbraut í vöruhönnun förum við því í samstarf við íslensk fyrirtæki, með það að leiðarljósi að endurskoða þau ferli og kerfi sem fyrir eru. Við könnum möguleika á viðbótum inn í framleiðsluferlið, breyttum aðferðum eða nýtingu á þeim efnum sem fara til spillis í stað þess að  byrja á því að hanna hluti og leita svo að framleiðendum.

- Auglýsing -

Okkar hugsjón er sú að hönnun í samtímanum eigi ekki að stuðla að aukinni neyslu eða byggja á framleiðsluaðferðum sem hafa neikvæð áhrif á umhverfi sitt, heldur þurfi að líta á hönnun sem hluta af lausn á vandanum. Nú á tímum loftslagsbreytinga er ekki að undra að ungir hönnuðir skuli leggja síaukna áherslu á að skoða samhengi þeirra hluta sem þau vinna með, leggjast í rannsóknir til að nýta efni á nýjan hátt, stokka upp manngerð kerfi sem við höfum lengi litið á sem sjálfgefin, og leita leiða til að skapa eitthvað nýtt með því að endurhugsa og endurnýta með umhverfisvæn sjónarmið að leiðarljósi. Í Listaháskóla Íslands er lögð mikil áhersla á að hugsa á gagnrýninn og skapandi hátt um hið viðtekna og leita leiða til að finna skapandi lausnir á einstaka málum og hugsa um heildina út frá nýjum forsendum.“

Hér fyrir neðan má sjá nokkur dæmi um verkefni sem nemendur við námsbraut í vöruhönnun hafa unnið í sínu námi:

Signý Jónsdóttir nýútskrifaður vöruhönnuður og Sveinn Steinar Benediktsson mastersnemi í hönnun unnu að rannsókn í sumar þar sem þau könnuðu möguleika melgresis, en melgresi er ein af okkar helstu landgræðslujurtum. 
Sjónum var beint að styrkleikum grassins til að auka meðvitund almennings um mikilvægi þess nú á tímum. 
Verkefnið verður kynnt á Hönnunarmars 2020.
Silvía Sif úr námskeiðinu Staðbundin framleiðsla. Verkefnið var unnið í samstarfi við Ás vinnustofu, Sóló húsgögn og Seglagerðina Ægi. Þekking og efni frá Sóló húsgögnum og Seglagerðinni voru nýtt til að skapa vöru í Ás. Varan skyldi vera úr efnum sem yrði annars hent og að hafa gott notagildi. Sylvía segir: „Þá vildi ég að hún væri einföld í framleiðslu en með þónokkrum og fjölbreyttum skrefum í ferlinu svo sem flestir hjá Ás gætu tekið þátt í að búa hana til, til að mynda við að myndskreyta vöruna.“
Íris Friðmey Sturludóttir og Móna Lea Óttarsdóttir úr námskeiðinu Tilraunastofa. „Frumskógargufubað“, úr staðbundnum plöntum frá ræktendum í Hrunamannahreppi, tómatplöntum og rósum. Verkefnið er innblásið af rússnesku gufubaði og svokölluðu „forest bathing“.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -