Lögregla gómaði þrjá unglinga í gærkvöldi sem höfðu tekið gaskúta úr görðum ófrjálsri hendi. Atvikið átti sér stað í Grafarvogi en piltarnir eru allir undir lögaldri. Auk þess eru þeir grunaðir um akstur án þess að hafa öðlast réttindi. Málið var unnið í samráði við foreldra og barnaverndaryfirvöld.
Fyrr um kvöldið barst lögreglu tilkynning um þjófnað í Kringlunni. Þeir sem eru grunaðir eru undir sakhæfisaldri og málið því einnig unnið í samráði við barnavernd og foreldra. Þá var tilkynnt um umferðaróhapp í Grafarvogi. Sem betur fer slasaðist enginn en þurfti dráttarbifreið til þess að fjarlægja báðar bifreiðar.