Samkvæmt Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmanni Vinstri grænna og formanns fjárlaganefndar hefur Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra enga heimild fyrir sölunni á TF-SIF.
Ljóst er á frétt Rúv að ósætti virðist vera innan stjórnarheimilisins vegna fyrirhugaðrar sölu dómsmálaráðherra á flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir formaður fjárlaganefndar segir heimild í fjárlögum fyrir kaupum eða leigu á þremur björgunarþyrlum fyrir Gæsluna og sölu á eldri þyrlu, TF-LÍF. Hvergi er minnst á TF-SIF í fjárlögunum. Samkvæmt Rúv segist Bjarkey vera ósátt með vinnubrögð Jóns og alls ekki ánægð með ákvörðunina, ekki síst vegna þess að engin umræða hefur farið fram um téða sölu.
Ætlar hún að boða fjárlaganefnd til fundar um málið á morgun og óskar hún eftir því að dómsmálaráðherrann sem og fulltrúi Gæslunnar mæti á fundinn.