Föstudagur 22. nóvember, 2024
-3.7 C
Reykjavik

Valgeir Skagfjörð minnist látins vinar: „Lífið reyndist Finna mínum erfitt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Valgeir Skagfjörð, leikari og tónlistarmaður minnist látins vinar síns, Magnús Finn Jóhannssonar sem jarðsettur verður í dag.

Skrifaði Valgeir hjartnæma færslu á Facebook þar sem hann minnist Magnúsar Finns en þeir kynntust er Valgeir og félagar hans fengu hann í hljómsveit sína.

Valgeir gaf Mannlífi góðfúslegt leyfi til að birta minningargreinina í heild sinni. Hana má lesa hér fyrir neðan:

„Í dag verður Magnús Finnur Jóhannsson vinur minn kvaddur hinsta sinni. Við kynntumst fyrst þegar við vorum rétt skriðnir yfir tvítugsaldurinn. Hans var beðið með óþreyju því hann kom til greina sem söngvari í hljómsveitinni sem við nokkrir félagar vorum að stofna. Hann var í hljómsveitinni Stofnþel og fóru sögur af undraverðum sönghæfileikum hans. Ég hafði aldrei heyrt í honum en hafði heyrt því fleygt að hann gengi undir nafninu „Stormbringer“.

Það var spennuþrungið andrúmsloft í bílskúrnum við Kársnesbraut 63 þegar hann ásamt Tryggva Hübner gítarleikara úr Stofnþeli komu inn um dyrnar. Við vorum að æfa frumsamið lag eftir mig sem hét: „I’m a man.“ Hann kom með sinn eigin hljóðnema sem hann stakk í samband. Hann lærði lagið á ljóshraða og röddin hans fór laginu vel. Æfingin gekk svo vel að það var ákveðið að hljómsveitin skyldi formlega verða skipuð þessum fimm einstaklingum sem þarna voru saman komnir. Hann var sannarlega „Stormbringer“. Við Finni (eins og hann var alltaf kallaður) náðum vel saman og hann var eins og fæddur til að syngja lögin mín og öll hin sem okkur langaði til að hafa á efnisskránni. Tveimur mánuðum síðar vorum við tilbúnir að koma fram opinberlega og það átti sér stað sprenging. Hljómsveitin Cabaret leit dagsins ljós og var kosin „Bjartasta vonin“ það ár og Finni kosinn efnilegasti söngvarinn í bransanum. Honum skaut upp á stjörnuhimininn með stórum hvelli.
Það er margs að minnast frá þessum árum en mest um vert er sú vinaátta og þau sérstöku tengsl við Finni áttum. Þau vináttubönd héldust lengi og hann kom til okkar í hljómsveitina Tíbrá frá Akranesi mörgum árum síðar og þar áttum við gott tímabil líka. Við tókum upp plötu með lögum eftir mig og náðum vel saman eins og forðum. En síðan skildi leiðir og Finni vinur minn átti eftir að kneyfa ört sitt ljúfa líf á meðan ég sagði skilið við Bakkus og það slaknaði á vináttuböndum okkar. Lífið reyndist Finna mínum erfitt þrátt fyrir allar þær góðu gjafir sem hann hafði hlotið í öndverðu. Hann háði harða baráttu við alkóhólisma og mikið sem hann reyndi að komast inn á rétta braut. Ég get því miður ekki fylgt honum síðasta spölinn en hugur minn dvelur við góðu minningarnar og sá músíkalski drengur sem Finni var á sinni tíð er nú lagður af stað í sína hinstu ferð í þessari jarðvist og megi allar góðar vættir fylgja honum hvert svo sem hún liggur. Eftir sitja alls konar stef og laglínur og hljómur söngraddar hans verður ávallt í minni mér.

Ég sendi ættingjum hans og afkomendum mínar innilegustu samúðarkveðjur. Bless Finni minn og takk fyrir allar góðu stundirnar.“

Mannlíf vottar einnig vinum og vandamönnum Finna samúð sína.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -