Sæþór Örn Ásmundsson hefur teiknað síðan hann man eftir sér, þegar hann var í 10. bekk málaði hann í fyrsta skipti á striga og þá varð ekki aftur snúið. Sæþór lærði hreyfigrafík á Ítalíu og nú á hann og rekur Farva sem er prentverkstæði og verslun sem selur prentgúmmelaði, ásamt Þorbjörgu Helgu eiginkonu sinni sem er grafískur hönnuður.
Við kíktum í Álfheimana þar sem listamaðurinn býr en Farvi er á neðri hæðinni.
Hvernig listamaður ertu? „Olíumálverkið hefur alla tíð heillað mig og ég hef mest unnið með þann miðil. Hef svo verið að grúska í prenti síðan 2010 og silki- og risoprentað verkin mín á prentverkstæðinu Farva sem ég rek með grafíska hönnuðinum og eiginkonu minni, Tobbu.“
Ákvaðst þú á einhverjum tímapunkti að verða listamaður eða gerðist það bara „óvart“? „Ég hef alla tíð teiknað mikið, sem krakki var ég alltaf að teikna en svo þegar ég fór í myndlistarval í 10. bekk og fékk að prófa að mála á striga varð ekki aftur snúið.“
Hvenær sólarhringsins finnst þér best að vinna? „Ég er á þeim stað í lífinu þar sem mikið að gera á stóru heimili og á prentverkstæðinu. Mér finnst því eiginlega bara best að vinna þegar ég hef tíma sem er oft á kvöldin og nóttunni.“
Hvernig verk ertu aðallega að gera og fyrir hvað? „Núna vinn ég mikið figúratíft, menn og dýr.“
Hvaða litir heilla þig? „Ég hef yfirleitt heillast meira af sterkum hreinum litum en svo má ekki vanmeta svarta litinn og gráu tónana sem eru svolítið eins og móðurskipið sem bindur alla liti saman.“
En form? „Eins og verkin mín bera með sér þá vinn ég mikið með grunnformin og svo auðvitað línuna … sé hún nógu þykk verður hún á endanum að formi.“
Hefur þú alla tíð haft gaman af því að teikna og mála? „Síðan ég man eftir mér, já. Ég hélt mína fyrstu einkasýningu fyrir 23 árum, þá 17 ára gamall.“
Hvaða listamenn eru í uppáhaldi hjá þér? „Wassily Kandinsky, Picasso, og Þorvaldur Skúlason.“
Hvar fást myndirnar þínar? „Olíumyndirnar og prentverkin fást hjá okkur í Farva, Álfheimum 4, og í netverslun okkar farvi.is. Olíuverkin eru einnig í verslunninni og vinnustofunni á efri hæðinni.“