Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, er í mótbyr þessa dagana eftir undarlegar uppákomur í kringum seinustu kjarasamninga. Ragnar er náinn samstarfsmaður Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, sem rak allt starfsfólk skrifstofu félags síns á einu bretti og stendur nú í skærum við nánast allt og alla.
Ragnar gerði kjarasamning í sama anda og Starfsgreinasambandið en neitaði að mæla með samningnum eða sitja fyrir á ljósmynd með þeim sem stóðu að samningnum. Hermt er að hann hafi verið þvingaður af félögum sínum til að samþykkja samninginn. Það fór svo að yfir 80 prósent félagsmanna studdu samninginn. Ragnar gaf kost á sér sem forseti Alþýðusambands Íslands áður en hann og Sólveig Anna settu allt upp í loft á þingi sambandsins og hann dró framboð sitt til baka. Undarlegt ferðalag Ragnars vekur furðu og efasemdir um leiðtogahæfileka hans. Nú vill hann fá að halda áfram sem formaður VR en mætir mótframboði starfsmanns skrifstofu sinnar.
Elva Hrönn Hjartardóttir, sérfræðingur á skrifstofu VR, hefur skorað formanninn á hólm. Elva Hrönn nýtur bæði trausts og virðingar og er þaulreynd í verkalýðsmálum og situr í ýmsum stjórnum og ráðum. Ýmislegt bendir til þess að hún fari fyrir hópi sem er óánægður með framgöngu Ragnars undanfarið og bandalag hans við Eflingu. Það er engin leið til að spá fyrir um niðurstöðu kosninganna sem fara fram í næsta mánuði og formaðurinn gæti allt eins fallið í kosningu.
VR er þekkt fyrir að ýmis ólíkindatól hafa setið þar á formannsstóli. Þess er skemmst að minnast að Stefán E. Stefánsson, siðfræðingur og seinna blaðamaður Mogga, var kosinn formaður en seinna felldur af formannsstóli eftir að hafa farið ótroðnar slóðir í starfi sínu …