Eflingardeilan er enn í í hnút og ekki virðast aðilar sjá lausnir í hverju horni. Nú hefur kröfu Eflingar þess efnis að Aðalsteinn Leifsson víki sæti sem ríkissáttasemjari í deilu félagsins við Samtök atvinnulífsins var hafnað í dag.
Kemur fram í fréttatilkynningu frá Eflingu í morgun að Ríkissáttasemjari hafi lagt fram miðlunartillögu án þess að uppfylla skilyrði laga.
Sagt er að skipaður ríkissáttasemjari sé kominn í þá stöðu að honum sé með öllu ómögulegt að miðla málum í kjaradeilunni sem hlutlaus aðili.
Fjöldi stéttarfélaga sem og samtaka launafólks hafa gagnrýnt miðlunartillögu ríkissáttasemjara opinberlega, en Aðalsteinn hafnar kröfunni; vísar til niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá í gær:
„Ég er að sjálfsögðu að leitast við að vinna mína vinnu af eins mikilli trúmennsku og mögulegt er. Það er rétt að það komi fram ýmis konar sjónarmið varðandi miðlunartillöguna þegar ég lagði hana fram 26. janúar. Þess vegna er líka mikilvægt að horfa til þess að héraðsdómur fjallaði sérstaklega um lögmæti miðlunartillöguna og var mjög skýr á því að þessi miðlunartillaga væri löglega sett fram,“ segir Aðalsteinn í samtali við ruv.is.
Í svarbréfi til Eflingar segir Aðalsteinn ríkissáttasemjari hafa algerlega í einu og öllu sinnt lagaskyldu sinni í málinu; hann hafi vandlega gætt hlutlægni í sínum störfum:
„Ég tel mig hæfan að lögum til að fara áfram með málið. Samkvæmt dómi í héraðsdómi Reykjavíkur í gær ber Eflingu skýlaus skylda til þess að láta af andstöðu við það að atkvæðagreiðslan eigi sér stað, með því að láta af hendi kjörskrá. Það eru engin sérstök tímamörk á því. Það er ætlast til þess að þessi atkvæðagreiðsla geti hafist sem fyrst,“ sagði Aðalsteinn.
Kemur fram að forysta Eflingar er boðuð til fundar með Ríkissáttasemjara á morgun til að ræða fyrirkomulag umatkvæðagreiðsluna, og á Aðalsteinn von á því að sá fundur muni verða haldinn; samninganefnd Eflingar mætti ekki á fund Ríkissáttasemjara í dag vegna þess að hún fékk eigi formlegt fundarboð.