Sunnudagur 12. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

Sara Páls hataði sjálfa sig: „Ég drakk bara uppi í rúmi þangað til að ég missti með­vitund“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sara Páls­dóttir lög­maður og dá­leiðari segir aðhún hafi verið komin algjörlega á botninn í sjálfs­hatri; fíkn og kvíða er hún fann sáljósið og fann frelsið.

Í hlað­varpi Sölva Tryggva­sonar segir Sara sína sögu;  hvernig hún spyrnti sér upp af botninum og þangað til batinn kom:

„Ég var með góða menntun og út á við átti allt að virka. Við hengjum sjálfs­myndina mjög oft á það sem við gerum og þannig var það hjá mér. Á meðan ég náði prófunum, náði í menntun og leit vel út á pappírunum gat ég verið full alla daga í al­gjörri af­neitun.

Svo rúllaði maður bara þessum risa­stóra snjó­bolta á­fram,“ segir Sara og bætir við:

„Ég gat alveg lært þó að ég væri alveg sósuð, þannig að ég gat látið þetta virka mjög lengi áður en ég þurfti að gefast upp. Ég var með svo mikla skömm og stolt að ég hefði nánast frekar dáið en að byrja að segja nokkrum manni frá því hvernig mér raun­veru­lega leið. Á endanum var þetta orðið þannig að ég drakk bara uppi í rúmi þangað til að ég missti með­vitund. Ég drakk bara „dry“ á­fengi – var bara heima og fór ekki neitt.

Ég var í raun orðin al­gjör­lega rúm­liggjandi af alka­hól­isma þegar ég loksins gerði eitt­hvað í því.“

- Auglýsing -

Sara hefur tekið slaginn við ýmsa djöfla er hafa hrjáð hana, og einn af þessum djöflum var átröskun:

„Ég var langt leidd af átröskun og var orðin alveg gríðar­lega veik. Ég man svo eftir einum morgni þar sem ég vaknaði og fann hjart­sláttinn orðin mjög hraðan og fannst ég bara vera að deyja og þá áttaði ég mig á því að ég var í al­vöru á leiðinni að deyja ef ég gerði ekki eitt­hvað í málunum. Þarna kom fyrsta ljósið og ég á­kvað að berjast fyrir sjálfri mér og velja lífið.“

Hún leitaði sér hjálpar – fór í meferð:

- Auglýsing -

„Ég man þegar ég kom fyrst inn á Vog skildi ég töskuna eftir úti í bíl þannig að ég gæti bara hlaupið til baka og ég var gríðar­lega hrædd um að sjá ein­hvern sem ég þekkti. Svo kom ég inn á Vog og þá var ég bara að hugsa um hvað ég væri í asna­legum inni­skóm. Þannig að meira að segja þarna var ég ekki hrædd um að ég væri að deyja úr alka­hól­isma, heldur var ég enn bara að hugsa um álit annarra. Þessi for­rit voru gríðar­lega sterk hjá mér. Það tók mig tals­vert langan tíma að verða edrú og svo eftir það þurfti ég að taka á átröskuninni og fór í með­ferð á Hvíta Bandinu.

Ég sé núna að þarna var líf mitt byrjað að snúast við, en samt var eftir mikil vinna í að laga það sem hafði í raun ollið því að ég var með fíkn í á­fengi og sjálfs­h­atrið sem olli átröskuninni.“

Eftir þessa miklu vinnu segir Sara að vinnan í að laga ræturnar að veikindinum hennar hafi verið eftir:

„Það sat alltaf eftir þessi brotna sjálfs­mynd, ó­öryggið, þetta stans­lausa nei­kvæða sjálfs­tal og kvíðinn. Það hélt bara á­fram að versna eftir að ég var hætt að drekka; fékk reglulega ofsa­kvíða­köst og van­líðanin var mikil. Það var rosa­lega erfitt að líða þannig eftir að ég var orðin edrú. Ég hafði selt mér að það eina sem ég þyrfti að gera væri að hætta að drekka og þá yrði allt full­komið og þá yrði allt í lagi. En drykkjan var bara flótti frá sjálfs­h­atrinu og því sem var þarna undir og það fór ekki neitt. Þannig að það að hætta að drekka var bara fyrsta skrefið.“

Sara bætir við að „ég hafði líka verið með vöðva­bólgur sem þarna urðu að krónískum verkjum og það gerði mig alltaf þreyttari og þreyttari; á endanum var ég komin með sí­þreytu. Þá var ég hætt að drekka og reykja og hélt ég væri að lifa heil­brigðum lífs­stíl og það gerði þetta enn­þá erfiðara. Mér leið stundum að­eins betur þegar ég hitti sjúkra­þjálfara eða þerapista, en það var alltaf bara mjög tíma­bundið og ég var farin að eiga veru­lega erfitt með að klára mig í gegnum ein­faldan vinnu­dag.“

Sara færir í tal að í hennar til­viki hafi batinn byrjað raunverulega að koma er hún fór í dá­leiðslur og byrjaði að hug­leiða:

„Ég byrjaði að hug­leiða fimm mínútur á dag og setja fókusinn á að ná bata. Fyrst þurfti ég að pína mig til þess að hug­leiða, þó að það væri svona stutt og ég fann að hugurinn var alveg stjórn­laus. En smám saman hófst þetta stór­kost­lega bata­ferða­lag og með hjálp hug­leiðslunnar og dá­leiðslu fór al­vöru frelsi að koma smátt og smátt. Ég áttaði mig á því að ég hefði verið upp­full af nei­kvæðri orku og á meðan ég losaði hana ekki væri ég í raun bara að fara á­fram á hnefanum. Ég fór að lesa allar bækur sem ég komst í um undir­með­vitundina og fór bara ,,all in” og fór svo í kjöl­farið í nám í dá­leiðslu og lærði heilun.

Þegar maður talar um orku fara margir í vörn og eru ekki til­búnir að hlusta, en ef ég tæki míkró­fóninn sem við erum að tala í og myndi smækka hann niður í sínar allra smæstu einingar væru það orku­einingar. Vísindi hafa verið að sýna fram á það að allt er orka. Líkaminn okkar er gerður úr orku­einingum, hugsanir eru orka og til­finningar eru orka.

Við verðum að fara að nálgast þessa hluti úr þeirri átt líka.“

Sara nefnir að „þegar ég var að leita allra þessarra hefð­bundnu lausna sem virkuðu mjög tak­markað fyrir mig var enginn sem gat út­skýrt þessa hluti fyrir mér.

En smátt og smátt fór ég að gera mér grein fyrir rótunum sem höfðu valdið vanda­málunum mínum. Ein rótin er sam­bandið sem við eigum við okkur sjálf. Í mínu til­viki hafði ég glímt við sjálfs­hatur sem birtist í sjálfs­á­sökunum, sjálfs­niður­rifi og kvíða. Þegar við eigum í mjög ó­heil­brigðu sam­bandi við okkur sjálf verður til sárs­auki og af­tenging. Önnur rótin er svo þessi upp­safnaða nei­kvæða orka sem ég hafði safnað inn í líkamann yfir langan tíma með á­föllum, nei­kvæðum hugsunum og til­finningum. Svo er þriðja rótin ó­heil­brigt hugar­far og ef maður glímir við sí­þreytu til dæmis er það gjarnan vegna þess að hugar­farið er stjórn­laust og hugurinn fær aldrei hvíld. Þessi nei­kvæðu hugar­fars­for­rit hafa á­hrif á líkamann og þreyta kerfið.“

Sara segir frá því í viðtalinu við Sölva hvernig hún fékk frelsi og bata frá verkjunum, kvíðanum og sjálfs­h­atrinu; segist hún alveg sann­færð um að allir geti fundið þetta frelsi:

„Ég vinn núna við að kenna fólki á tæki og tól til að fjar­lægja þessar rætur og breyta hugar­fari sínu, þannig að fólk fái varan­legt frelsi. Mín skoðun er sú að þetta frelsi sé í boði, sama hvort það er krónísk þreyta, kvíði, þung­lyndi eða sí­þreyta. Vinnan með nánast alla sem leita til mín endar alltaf í þessum þremur rótum og með því að vinna á þeim og breyta þeim byrjar frelsið að koma. Í gegnum mitt eigið bata­ferða­lag fékk ég sýn þar sem ég sá að mér var ætlað að hjálpa öðrum sem væru að glíma við það sama og ég hafði glímt við. Síðan þá hef ég verið að elta þessa sýn, allt síðan 2019.“

Sara segir að breytingar hafi eðlilega orðið á hennar daglega lífi:

„Fyrst hélt ég að ég gæti verið að starfa á­fram sem lög­maður, enda var ég að reka mína eigin stofu og gekk vel. Ég gerði það í á­kveðinn tíma, en núna er dá­leiðslan, nám­skeiðin og fyrir­lestrarnir orðin aðal­vinnan mín, enda finn ég að þetta er það sem mér var ætlað að gera. Ég finn að lög­mennskan á ekki lengur hjarta mitt og þá er ekki til­gangur með því að vera á­fram þar.“

Sara segir að endingu að það „getur tekið tals­verðan tíma að slíta sig alveg burt, enda geta mál tekið mörg ár ef þú ert búinn að taka þau að þér. En ef hjarta þitt er ekki lengur í hlutunum ertu ekki að gera neinum gagn með því að halda þeim á­fram. Það er meira en nóg af góðum lög­mönnum. Ef maður finnur til­ganginn svona sterkt á maður að elta það, enda er enginn betri en þú í ná­kvæm­lega því sem þér er ætlað að gera. En ef þú ert að keppa við fólk í ein­hverju þar sem hjarta þitt fylgir ekki, þá er mjög lík­legt að aðrir séu miklu betri en þú.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -