Fimmtudagur 12. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

Var búinn að skrifa kveðjubréfið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rokkhljómsveitin Casio Fatso var að senda frá sér sína fjórðu plötu, Last Album Before I Die. Platan varð til í kjölfar þess að söngvari sveitarinnar Sigursteinn Ingvar Rúnarsson fékk hjartaáfall síðasta sumar þegar hann var í útileigu með fjölskyldunni. Hann vann plötuna meðan á endurhæfingu stóð og var á tímabili ekki viss um að honum tækist að klára ætlunarverkið.

 

„Þótt markmiðið hafi auðvitað alltaf verið að verða góður líkamlega og svoleiðis þá var mikil gulrót í öllu þessu ferli að hafa að einhverju að stefna, að geta hellt sér út í verkefni sem er manni svona hjartfólgið,“ segir Sigursteinn, þegar hann er spurður hvernig það hafi verið að vinna plötuna í miðri endurhæfingu.

„Lungun og hjartað voru reyndar ekki alveg upp á sitt besta,“ viðurkennir hann. „Hægri kransæðin, sem sér lungunum fyrir miklu súrefni, var alveg lokuð og þar af leiðandi var tvísýnt að ég gæti beitt röddinni eins og ég þurfti. Enda var ég líka hálfandstuttur, svona til að byrja með og vissi í rauninni hreinlega ekki alveg hvort ég gæti klárað plötuna. En líkaminn er ótrúlegur. Hann náði að aðlaga sig að þessu ástandi, þannig að maður fór smám saman að þora meiru og á endanum hafðist þetta, sem betur fer.“

Plötuna tók Sigursteinn upp í eigin stúdíói, Spiderstudios, þar sem hann segist geta verið einn og gert tónlistina sína í friði. „Konan mín hringdi reyndar reglulega í mig til að athuga hvort ég væri enn á lífi, þannig að ég útbjó leiðbeiningar fyrir hana um hvernig ætti að hlaða upp lögunum sem voru tilbúin, svona ef ske kynni að ég myndi deyja áður en platan væri klár,“ segir hann og kímir.

„Ég skrifaði líka niður skilaboð til krakkanna minna sem var gríðarlega átakanlegt.“

Textarnir á plötunni eru vægast sagt persónulegir, því sumir þeirra innihalda lokakveðjur Sigursteins til fjölskyldu hans og vina. „Ég skrifaði líka niður skilaboð til krakkanna minna sem var gríðarlega átakanlegt. En það er svona þegar maður áttar sig á eigin dauðleika og hvað er mikilvægt í raun og veru í þessu helvítis lífi.“

- Auglýsing -

Sigursteinn tekur þó fram að þrátt fyrir alvarlegan undirtón og vissa auðmýkt í textunum þá sé aldrei langt í fjörið á plötunni. „Það er enn þá sama rokkið,“ segir hann, með vísan í fyrri plötur sveitarinnar, „en það er meiri kassagítar en áður og meira um strengi og kór.“ Þá segist hann loks hafa tekið upp á því að semja lag tileinkað móður sinni, eftir að hafa samið nokkur handa föður sínum. „Þá vildi svo til að ég hitti akkúrat á lag þar sem ég þen raddböndin helst til of mikið fyrir hennar smekk,“ segir hann og skellir upp úr.

En hvernig hefur hann það í dag? Lítur hann lífið öðrum augum eftir þetta? „Þetta var auðvitað mikið inngrip, maður þurfti að staldra við og líta inn á við. Ég var náttúrlega í vernduðu umhverfi á Reykjalundi, umkringdur frábæru starfsfólki, þannig að ég er á góðum stað andlega. Nú stefni ég bara á að komast í mitt besta líkamlega form síðan á menntaskólaárunum,“ segir hann og er greinilega bjartsýnn á að það takist.

Platan er nú komin á allar helstu streymisveitur og það er því ekki úr vegi að spyrja í lokin hvort það standi til að fylgja henni eftir með tónleikahaldi? „Það er ekkert planað,“ segir hann, „en ég er opinn fyrir öllu.“

- Auglýsing -

Texti / Sigrún Guðjohnsen
Mynd / Elísabet Stefánsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -