Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Uppljóstranir Gunnars Hrafns: Synir Jóhönnu fjarlægðu verk Hannesar Hólmsteins úr ráðherrabústaðnum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gunnar Hrafn Jónsson segir frá spaugilegri bústaðaferð með móður sinni og konu hennar, Jóhönnu Sigurðardóttur í glænýju viðtali Mannlífs.

Jónína Leósdóttir rithöfundur og móðir Gunnars Hrafns Jónssonar, fjölmiðlamanns, fyrrum þingmanns og fyrrum fyndnasta manns Íslands, er gift Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrum forsætisráðherra landsins. Í spánýju viðtali Mannlífs segir Gunnar Hrafn frá tveimur fyndnum sögum úr ráðherrabústaðnum á Þingvöllum.

Dorrit niðurlægir Ólaf Ragnar

„Bústaðurinn á Þingvöllum er mjög skemmtilegur staður. Þar sem var áður bara kirkja en núna er meira en helmingurinn af þessu bústaður fyrir forsætisráðherra til að bjóða þjóðhöfðingjum og svona. Þetta var allt markerað af valdatíð Davíðs Oddssonar. Það hafði mjög litlu verið breytt síðan. Það hengu þar uppi einhver plögg, viðurkenningarplögg um hann og alls staðar, í öllum stærstu hillunum og þar sem maður tók mest eftir, voru doðrantar eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Og synir Jóhönnu, mega eiga það að þeir eru skemmtilegri en hún. Þeir fóru að ganga um húsið og leita uppi þessar bækur og földu inn í einhverri geymslu. Þeir sóttu svo sínar eigin bækur um sósíalisma og settu upp til að fylla í götin. Síðan koma Dorrit og Ólafur Ragnar í heimsókn en ég var nú ekki viðstaddur þá heimsókn. Og Dorrit elskar pleisið, finnst þetta bara það fallegasta sem hún hefur séð, svona sveitasetur. En þau töluðust varla við á þessum tíma, Ólafur og Jóhanna. En þetta var svona formleg heimsókn. Þá segir Dorrit þessi gullnu orð: „Ólafur, þetta er svo flottur staður, af hverju þú aldrei takast vera forsætisráðherra?“ Og svipurinn sem kom á Ólaf Ragnar, hafandi alla ævi verið að reyna að verða forsætisráðherra, var bara „nothing to talk about Dorrit,“ sagði Gunnar Hrafn hlæjandi.

Dalai Lama bankar á dyrnar

En þetta er ekki eina gamansagan úr ráðherrabúðstaðnum á Þingvöllum.

- Auglýsing -

Dalai Lama, aðalleiðtogi tíbetskra búddista og forsvarsmaður tíbetsku útlagastjórnarinnar í Dharamsala, var eitt sinn staddur á Íslandi en Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra átti erfitt með að hitta hann vegna andstöðu kínverskra yfirvalda við heimsókninni. „Kínverjarnir bara strækuðu á það. Þannig að hún og mamma fara á Þingvelli. Þingvellir eru reyndar ekki mest prívat staður í heimi því túristar eru sífellt að banka og biðja um að fá að fara á klósettið. Og það er ekkert annað klósett þarna. Mamma öskraði alltaf á eftir mér þegar ég kom inn „Læstu hurðinni, annars koma túristarnir inn!“, af því að klósettið er við dyrnar. Og menn opnuðu bara dyrnar og fóru inn og út af klósettinu. Þarna var engin öryggisgæsla. Þannig að Jóhanna bað um að sett yrði upp grindverk. Þá var sett upp ekki nema metershá keðja sem ég gat klofað yfir. Þá birtist frétt að ég held í DV þar sem stóð „Búið er að víggirða ráðherrabústaðinn á Þingvöllum,“ sagði Gunnar Helgi og hló. En aftur að Dalai Lama hinum fjórtánda.

„Það sem gerist er að þær telja sig vera alveg safe,“ segir Gunnar Hrafn og á þá við að þær hafi farið í sveitina til að forðast Dalai Lama. „Og þær eru bara þar að slappa af, með girt fyrir glugga svo það sjáist ekki að einhver sé heima. En svo bara „bank, bank“ og gert ráð fyrir að þetta sé bara enn einn túristinn sem þurfi að pissa. Og mamma fer fram og dregur gluggatjöldin frá og sér eitthvað um 20 appelsínugula klædda munka í lögreglufylgd, með íslensku lögreglunni. Og þeir eru að banka og banka og mamma er fljót að loka aftur og snýr sér að Jóhönnu og segir þessi fleygu orð sem hefur verið sagt frá reyndar áður í fjölmiðlum: „Holy shit, Dalai Lama er kominn!“, sem er yfirleitt ekki viðbrögð fólks þegar Dalai Lama bankar á dyrnar.“

Viðtalið mun birtast í heild sinni klukkan 20 í kvöld á vef Mannlífs en þar lætur Gunnar Hrafn allt flakka.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -