Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, prófessor deildarforseti við Háskólann á Bifröst, spáir því á Facebook að Samtök atvinnulífsins hafi aldrei ætlað sér að semja við Eflingu. Hún telur líklegt að SA vilji frekar brjóta Eflingu á bak aftur en að semja og forðast verkfall.
Ólína skrifar: „Eftir að hafa hlustað á Halldór Benjamín í kvöld, ofan í lestur á leiðara Morgunblaðsins í morgun, þá liggur taktíkin nokkuð ljós fyrir: SA ætlar ekki að semja. Þeir sjá sér ekki hag í því.“
Hún telur markmiðið að þrýsta á stjórnvöld. „Harðlínuvængur SA ætlar sennilega að herða hnútana og hafa verkföll í gangi. Það auðveldar þeim að setja þrýsting á stjórnvöld um að grípa inn í deiluna með lagasetningu. Þar með væru stjórnvöld búin að setja fordæmi sem vitna mætti til í vinnudeilum framtíðar. Þetta virðist SA álíta meira virði – að brjóta Eflingu á bak aftur – heldur en að semja við félagið um mannsæmandi laun sem duga fyrir framfærslu. Mín spá – ég vona samt að hún rætist ekki,“ skrifar Ólína.