Febrúar býður upp á fjölda tónlistarviðburða, þessir eru á meðal þeirra sem eru framundan.
Foreign Monkeys, Horrible Youth og Rock Paper Sister á Hard Rock Café
Foreign Monkeys, Horrible Youth og Rock Paper Sister verða með tónleika á Hard Rock Café laugardagskvöldið 1. febrúar. Bæði Foreign Monkeys og Horrible Youth sendu frá sér plötu á nýliðnu ári og hafa félagarnir í Rock Paper Sister með Eyþór Inga í broddi fylkingar gefið frá sér fjölda laga sem hafa hljómað á öldum ljósvakans. Húsið opnar klukkan 21 og hægt er að nálgast miða á Tix.is. Tónleikahaldarar lofa kröftugri jaðar-rokkveislu af gamla skólanum.
Sandra Barilli og Lóa Hjálmtýsdóttir stýra karaókíkvöldi á Röntgen
Sprellspúsurnar og gleðigæsirnar landsfrægu Sandra Barilli og Lóa Hjálmtýsdóttir stýra karaókíkvöldi á Röntgenstofunni á efri hæð Röntgen fimmtudagskvöldið 6. febrúar. Þetta er eitthvað sem lesendur ættu ekki að missa af enda viðbúið að slagarar og tryllt stemning fylli húsið. Fjörið byrjar klukkan 21. Enginn aðgangseyrir.
Ágústa Eva og Prinsarnir á Valentínusardag
Föstudaginn 14. febrúar verður sannkallað Prince-kvöld á sjálfan Valentínusardaginn í sveittum og rómantískum kjallara Hard Rock Café við Lækjargötu. Unnendur bandaríska tónlistarmannsins Prince ættu ekki að láta þessa tónleika fara fram hjá sér. Það er engin önnur en Ágústa Eva Erlendsdóttir sem sér um söng, Ómar Guðjónsson gítar, Tómas Jónsson „keys,“ Þorvaldur Þór Þorvaldsson trommur og Guðmundur Óskar Guðmundsson sér um bassann. Húsið opnar klukkan 20. Hægt er að nálgast miða á Tix.is.