Albumm mælir með þessum viðburðum sem eru framundan.
Helgarhald á Gauknum
Helgarhátíðin Helgarhald verður haldin í annað sinn helgina 17. og 18. janúar á Gauknum. Á hátíðinni koma fram margar af fremstu hljómsveitum og tónlistarmönnum landsins. Hátíðin er haldin í kringum afmælisdag stofnanda hennar, Helga Durhuus, sem lofar góðu partíi – og enn betri tónlist. Helgarpassar á hátíðina eru til sölu á tix.is og kosta 3.000 kr. Einnig verður hægt að kaupa dagspassa við hurð á 2.000 kr. Nánari upplýsingar um dagskrána á Albumm.is.
Biggi Maus á Röntgen
Birgir Örn Steinarsson, eða Biggi Maus eins og flestir þekkja hann, stýrði hinum geysivinsælu þáttum 8-9-0 á Rás tvö um árabil þar sem eingöngu tónlist frá áttunda, níunda og tíunda áratugnum var leikin. Ekki er langt síðan þættirnir hættu göngu sinni en aðdáendur þeirra geta tekið gleði sína á ný. Biggi ætlar að mæta á skemmtistaðinn Röntgen með dj-sett byggt á sama konsepti, fimmtudagskvöldið 23. janúar klukkan 22. Röntgen er við Hverfisgötu 12. Frítt er inn á viðburðinn.
HAM heimsækir horn Hljóðfærahússins
Hljóðfærahúsið stendur fyrir viðburðaseríunni Heimsókn í hornið þar sem listafólk kemur fram á sviðinu í horni verslunarinnar við Síðumúla 20. Fyrirkomulagið er afslappað og misjafnt hvað er í boði hverju sinni; tónleikar, spjall, kennsla eða sitt lítið af hverju. Næst verða meðlimir hljómsveitarinnar HAM teknir tali í Hljóðfærahúsinu og farið yfir ferilinn, auk þess sem þeir taka nokkur lög. Fjörið fer fram 21. janúar og hefst klukkan 16.30. Enginn aðgangseyrir er á viðburðinn.