„En helsti sparnaðurinn hjá mér varðandi mat felst í því að henda aldrei mat og nýta alla afganga“ segir Sigríður Ingvarsdóttir, neytandi vikunnar, í nýjasta tölublaði Mannlífs. Sigríður er bæjarstjóri Fjallabyggðar og ritstjóri Húsfreyjunnar.
Mér finnst skelfilegt að hugsa til allrar þeirrar matarsóunar sem á sér stað, hér á landi og annars staðar, því þetta þarf alls ekkert að vera svona. Það er hægt að nýta afganga á svo margvíslegan hátt og gera girnilega rétti úr þeim. Til dæmis ef rjómi er að renna út á tíma hjá mér, þá frysti ég hann. Alltaf gott að eiga rjóma í frysti til dæmis til að bæta út í súpur og sósur. Ef mjólkurvörur eru að renna út á tíma hjá mér þá baka ég úr þeim.