Lögreglu barst tilkynning í gærkvöldi um mann sem pantaði sér veitingar á veitingastað og gekk út án þess að greiða fyrir. Lögregla fór á vettvang en ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvort maðurinn hafi fundist. Skömmu síðar var lögregla kölluð út í miðbæ Reykjavíkur vegna líkamsárásar. Lögregla fór á vettvang og ræddi við þolanda.
Aðili var fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku í gærkvöldi þegar tvær bifreiðar lentu saman við gatnamót Grensásvegar og Fellsmúla. Báðar bifreiðar voru óökuærar eftir umferðaróhappið en ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvort aðilinn hafi slasast alvarlega. Síðar um kvöldið handtók lögregla mann sem grunaður er um líkamsárás. Maðurinn var í annarlegu ástandi og gistir því í fangaklefa. Í Breiðholti var brotin rúða í fjölbýli. Gerandinn er talinn vera íbúi í húsinu. Þá handtók lögregla geranda í líkamsárásarmáli. Við handtöku kom í ljós að maðurinn reyndist vera eftirlýstur og var hann því vistaður í fangaklefa.