Athugull nágranni í hverfi 108 hafði samband við lögreglu í gærkvöldi og tilkynnti hugsanlegt innbrot. Þegar lögregla kom á vettvang var húsráðandi heima en hann hafði læst sig úti og ákveðið að klifra upp á svalir á annarri hæð til þess að komast inn til sín. Í miðbænum hafði lögregla afskipti af manni sem var að ónáða gesti á veitingastað. Samkvæmt dagbók lögreglu virtist maðurinn í góðum gír og þurfti ekki að hafa frekari afskipti af honum.
Síðar um kvöldið þurfti lögregla að aðstoða menn vegna ölvunar. Einn þeirra fékk að gista í fangaklefa en öðrum var ekið til síns heima. Þá barst lögreglu tilkynning um innbrot í tvær verslanir í nótt. Gerendur voru farnir af vettvangi þegar löregla mætti en málið er til rannsóknar. Ökumaður undir áhrifum áfengis varð valdur umferðaróhapps í gærkvöldi. Maðurinn var handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem tekið var úr honum blóðsýni. Þá verður maðurinn látinn gista í fangaklefa þar til hægt verður að taka af honum skýrslu.