Jazzklúbburinn Múlinn heldur áfram með haustdagskrá sína í kvöld föstudaginn, 22. nóvember í Kaldalónssal Hörpu. Fram kemur hljómsveitin Thoroddsen / Weiss / van Endert Project.
Sveitin, þar sem gítarleikarinn Björn Thoroddsen er í fararbroddi, er samstarfsverkefni jasstónlistarmanna frá Íslandi og Þýskalandi. Hún hefur það að markmiði að ferðast milli Evrópulanda og fá þekkta tónlistarmenn hvers lands til liðs við sig til að flytja tónlist sem sameinar ólíka menningarheima. Á tónleikunum koma fram auk Björns Thoroddsen, gítarleikarinn Philipp van Endert, saxófónleikarinn Ólafur Jónsson, Þorgrímur Jónsson á bassa og trommuleikarinn Peter Weiss. Tónleikarnir hefjast klukkan 21. Almennt miðaverð er 2.500 krónur, en 1.500 kr. fyrir nemendur og eldri borgara. Miðar fást í miðasölu Hörpu og á harpa.is og tix.is.