Tónlistarhátíðin Doomcember, sem tileinkuð er svokölluðum dómsmálmi (doom metal), fer fram á Gauknum 22. og 23. nóvember.
Dómsmálmur er regnhlífarhugtak yfir nokkrar gerðir öfgarokks sem eiga sameiginlegt að einkennast af hægum takti, þungum tón í hljóðfærum, háværu andrúmslofti og textagerð sem fjallar um geiminn, dulspeki, endalok heimsins og fleira í þeim dúr.
Á hátíðinni koma fram ýmsar sveitir, bæði innlendar og erlendar, sem kenna sig við þessa tegund tónlistar, þar má nefna Sunnata frá Póllandi og Saturnalia Temple frá Svíþjóð, einnig Katla sem kemur í fyrsta sinn fram á Íslandi, Plastic Gods, sem oft er talin besta dómsmálmshljómsveit Íslands, Slor, Kvelja, Nornagal, Godchilla, Dynfari og Morpholith, en þrjár síðastnefndu hljómsveitirnar hafa spilað utan landsteinanna í Bretlandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi og í Rúmeníu.
Þess má geta að Doomcember-hátíðin var fyrst haldin fyrir unnendur dómsmálms árið 2016, til að gefa sýnishorn af því besta á íslensku dómsmálmssenunni. Síðan þá hefur sveitunum sem koma nú líka erlendis frá fjölgað og stendur hátíðin yfir í tvo daga. Eins og áður sagði fer hún fram á Gauknum 22. og 23. nóvember.
Miða má nálgast á tix.is og í miðasölu á Gauknum.