Flugslys varð við Arnarnes árið 1987 er farþegavél frá Flugfélaginu Erni fórst og með henni flugmaður vélarinnar.
Það var þann 11. janúar árið 1987 að farþegaflugvél frá Flugfélaginu Erni, með einkennistafina TF-ORN, lenti í sjónum út af Arnarnesi, sem er í minni Skutulsfjarðar í Ísafjarðardjúpi.
Flugmaðurinn, sem var einn um borð, lést.
Var vélin af gerðinni Piper Chieftain; var nýkomin úr skoðun á Akureyri.
Atburðarásin var þannig að klukkan 19:48 um kvöldið örlagaríka hafði flugmaðurinn samband við Ísafjarðarflugvöll; lét vita að hann væri yfir Reykjanesskóla; væri að hefja aðflug.
Aðeins átta mínútum síðar hafði hann aftur samband við flugvöllinn, flugvallarstarfsmaðurinn staðfesti sambandið, en heyrði ekkert frekar frá flugvélinni.
Á sama tíma sáu fiskimenn á rækjubát flugvélina út af Arnarnesi; flaug veĺin lágt yfir bátnum og hvarf svo í élin.
Varðskipið Óðinn var við Æðey á þessum tíma; heyrðist í neyðarsendi rétt fyrir klukkan 20:00 – nam skipið sendinguna í um það bil 20 mínútur.
Í kjölfarið hófst umfangsmikil leit þar sem flugvélar Varnarliðsins og Flugmálastjórnar, ásamt þyrlu Landhelgisgæslunar héldu af stað vestur með hraði.
Það var svo rétt fyrir klukkan 22:00 um kvöldið að varðskipið Óðinn nam á nýjan leik veikar sendingar frá neyðarsendi flugvélarinnar.
Tæplega klukkustund síðar fundu leitarmenn brak úr flugvélinni á floti utan við Arnarnes; sást olíubrák í sjónum. Ekki löngu síðar, eða rétt fyrir miðnætti, fannst svo hálfur vængur á floti; norðaustan við svonefnda togarabauju.
Er leitarmenn í bátnum hugðust ná vængnum og koma honum um borð í Óðin fundu þeir lík flugmannsins. Maðurinn hét Stefán Páll Stefánsson og var einungis 38 ára gamall; lét hann eftir sig eiginkonu og þrjú börn.
Vélin er fórst var önnur flugvélin sem Flugfélagið Ernir missti á innan við tveimur árum; en vélin sem fórst við Arnarnes hafði verið keypt í stað þeirrar er fórst í Ljósufjöllum 5. apríl árið 1986.