Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, er í nauðvörn þessa dagana. Elva Hrönn
Hjartardóttir sækist eftir formannsembættinu og gagnrýnir hann af hörku.
Ragnar Þór hafði þá ímynd að vera grjótharður og jafnvel byltingarsinnaður baráttumaður. Þess er skemmst að minnast að hann, Sólveig Anna Jónsdóttir og Vilhjálmur Birgisson mynduð þríeyki hinna kröfuhörðu. Sameiginlega sprengdu þau Alþýðusamband Íslands í loft upp og boðuðu kjarabyltingu. En svo fór allt í bál og brand hjá þríeykinu. Ragnar og Vilhjálmur sömdu við Samtök atvinnulífsins en Sólveig Anna sat samningslaus eftir og lét fúkyrðin dynja.
Elva Hrönn, mótframbjóðandi Ragnars, sækir nú fast að honum og heggur á báðar hendur. Í Silfrinu um helgina gagnrýndi hún Ragnar Þór fyrir að standa í vegi fyrir ýmsum málum með framtaksleysi eða af öðrum ástæðum. Það merkilega er að Elva Hrönn er samstarfsmaður hans hjá VR og er með mikla þekkingu á innviðum og starfi félagsins. Nú er byltingin í óða önn að éta börnin sín. Enginn veit hvernig kosningin fer …