Félagsmenn Sjómannafélags Íslands kolfelldu kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.
Samkvæmt vefsíðu Verkalýðsfélags Vestfirðinga kolfelldu sjómenn kjarasamning sem SFS bauð þeim. Kosningunni lauk klukkan 15:00 í dag. Á kjörskrá voru 1.200 manns og var kjörsókn 47,58 prósent.
Niðurstaðan var sú að 180 sögðu já við samningnum eða 31,52 prósent, nei sögðu 385 eða 67,43 prósent. Auðir voru 1,05 prósent.
Þá kemur fram á vefsíðu Afls starfsgreinafélags að Sjómannafélag Grindavíkur og VM hafi einnig kolfellt samninginn en að Skipstjórafélagið hafi samþykkt samninginn með 55 prósent atkvæða.
Mun framkvæmdastjórn Sjómannasambandsins funda fljótlega til að ákveða næstu skref en fram kemur á síðu Afls, að fátt virðist í stöðunni annað en að hefja undirbúning verkfalla. Samningar runnu út árið 2019 og hafa sjómenn verið samningslausir síðan.