Hljómsveitin Band of Reason fagnar útgáfu EP-plötunnar Grooves með tónleikum í nýjum húsakynnum Íslenska Rokkbarsins Bæjarhrauni 26, Hafnarfirði í kvöld klukkan 22.30.
Nýja plata Band of Reason inniheldur fjögur ólík en rokkskotin lög á jákvæðum nótum, allt frá ballöðukenndu rokki yfir í klassískt rokk og því má búast við þéttum rokkpakka. Upptökur á plötunni sjálfri fóru fram í stúdíóinu Aldingarðinum, þar sem Magnús Leifur sá um upptökur, hljóðvinnslu og lokafrágang.
Fyrir þá sem ekki vita er Band of Reason fimm ára gömul hljómsveit sem varð til með samstarfi fjögurra tónelskra vina. Sveitin hefur áður gefið út plötuna Open Road, sumarið 2017 og tvö lög, That’s All og Voidsong, árið 2018.
Auk útgáfutónleikanna á Íslenska Rokkbarnum eru fyrirhugaðir tónleikar á Midgard Base Camp, á Hvolsvelli á morgun, laugardaginn 21. september og svo er ferð sveitarinnar heitið til Nashville í Bandaríkjunum þar sem hún kemur fram á The Old Line, þann 19. október.