Frosti Logason kom með „sprengju“ í nýjasta hlaðvarpsþættinum Harmageddon rétt í þessu en þar staðhæfir hann að Edda Falak, blaðamaður á Heimildinni og þáttastjórnanda Eigin Konur hlaðvarpsins, hafið logið í fjölmiðla að hún hafi unnið í dönskum fjárfestingabanka, þar sem hún hefði orðið fyrir kynbundnu áreiti.
Í myndbroti úr þættinum sem birtist á YouTube fer Frosti yfir þau skipti sem Edda hefur fullyrt í fjölmiðlum að hún hafi unnið í virtum dönskum fjárfestingabanka, þar sem hún vann við veðbréfamiðlun þar sem hún hafi orðið fyrir kynbundnu áreiti. Þá birtir hann einnig skjáskot af samtali þar sem Edda segist ekki hafa unnið í banka heldur Novo, sem er stytting á Novo Nordisk, sem er stórt danskt lyfjafyrirtæki. Fullyrðir Frosti í þættinum að allt þetta sé rangt, Edda hafi hvorki unnið í fjármálafyrirtæki né í Novo Nordisk. „Núna er ég búinn að gera vinnuna, ég er búinn að hringja símtölin, ég er búinn að senda póstana, ég er búinn að vera að skoða þetta stanslaust í nokkrar vikur. Ég er búinn að vera í samskiptum við danska fjármálaeftirlitið, ég er búinn að vera í samskiptum við Nova Nordisk, ég er búinn að vera í samskiptum við fullt af fólki, samferðafólki Eddu Falak í Kaupmannahöfn og Íslandi. Og ég er búinn að fá það algjörlega staðfest að Edda Falak hefur aldrei miðlað með veðbréf enda hefur hún aldrei haft slík réttindi. Hún hefur aldrei unnið í stórum fjárfestingabanka, hún hefur ekki unnið í virtum banka og hún hefur aldrei heldur unnið hjá Nova Nordisk.“
Segir Frosti þessar upplýsingar vera algjöra „sprengju“. „Þetta er algjörlega ótrúlegt því hún er ekki að fullyrða þetta eftir þrjá bjóra á Kaffibarnum niðri í bæ, hún er að segja þetta í stærstu fjölmiðlum landsins.“ Þá segist Frosti ekki muna eftir öðru eins eftir að hafa starfað í 23 ár í fjölmiðlum. „Þetta er eitthvað annað. Þetta þýðir að manneskja sem segir þetta bláedrú í viðtölum í stærstu fjölmiðlum landsins og veit að hún er að segja ósatt, þarna er um að ræða persónuleikaraskanir. Við erum að tala um alvarlegar persónuleikaraskanir sem ég get ekki farið að greina því ég er ekki fagaðili en fólk sem ég þekki sem eru fagaðilar segja að þetta sé klárlega eitthvað slíkt. En það verða aðrir að dæma um á endanum.“
Þá spyr Frosti í lokin hvað vinnuveitandi Eddu muni gera í kjölfar þáttarins en hún starfar nú sem blaðamaður hjá Heimildinni. „Hvað gerir Heimildin? Heimildin er virtur rannsóknarmiðill, er það ekki? Heimildin stærir sig af mörgum blaðamannaverðlaunum og ritstjórn Heimildarinnar hefur nú innanborð manneskju sem hefur nú verið staðin að því að ljúga til um starfsferil sinn og réttindi og trommað sig upp til æðstu metorða í samfélaginu.“
Edda Falak svaraði ekki spurningum blaðamanns við vinnslu fréttarinnar.