Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

„Einskonar hin hliðin á hennar texta“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tónlistarmaðurinn Franz Gunnarsson hefur í nægu að snúast þessa dagana en hann var að senda frá sér lagið Hjartafleygur, undir verkefninu Paunkholm. Að auki er hann markaðsstjóri fyrir Hús Sjávarklasans sem rekur Hlemm Mathöll og Granda Mathöll.

 

„Innan klasans starfar fjöldinn allur af spennandi fyrirtækjum og frumkvöðlum með ótrúlega flottar hugmyndir í farteskinu,“ segir Franz. En á árs afmæli Granda Mathallar um daginn var opnað nýtt rými sem kallast Grandi Food Hall & Fishmarket þar sem hægt er að horfa inn í Fiskmarkað Íslands þegar verið er að landa fisknum á bryggjunni fyrir utan Mathöllina.

„Þetta er viðburðarými sem við erum að undirbúa sem tónleikastað og þar er ég klárlega á heimavelli hafandi bókað og auðvitað spilað þúsundir tónleika,“ segir hann og bætir við að staðurinn muni til að byrja með hýsa órafmagnaða eða lágstemmda tónleika. „Svo munum við sjá hvernig rýmið virkar fyrir mismunandi stefnur. Eitt er víst að það verður geggjuð upplifun að hita sig upp með mat og drykk í Mathöllinni og skella sér svo á flottan konsert.“

Hefur ekki breyst í „púða“

Eins og fyrr segir var Franz að senda frá sér lagið Hjartafleygur og segir hann að það hafi verið samið í einni stuttri lotu, reyndar í annarri tóntegund en allt hafi smollið saman hratt og örugglega.

„Textinn tók nokkra daga því ég var ekki með neitt umfjöllunarefni í sigtinu. Svo var ég að skutla stráknum mínum þegar lagið Erase You með Vök kom í útvarpinu og þá fékk ég hugmynd að búa til sögu um viðfangsefnið sem Margrét Rán, söngkona Vök, vill eyða, svona einskonar hin hliðin á hennar texta. Þegar umfjöllunarefnið var komið þá setti ég textann saman á tuttugu mínútum,“ útskýrir hann. „Textinn er sem sagt uppspuni með enga stoð í raunveruleikanum.“

„Ég fæ reyndar enn þá mikla rokkútrás með Dr. Spock þannig að ég hef ekki breyst í algjöran „púða“ þó ég búi til og syngi poppaða músík í hjáverkum.“

- Auglýsing -

Hvernig hann hafi þróast tónlistarlega séð í gegnum árin segist hann hafa mildast með árunum. „Ég kom inn í þennan bransa á síðustu öld sem rosalega harður rokkari með sítt hár og klæddur leðri,“ lýsir hann. En Franz spilaði „thrash metal“ með hljómsveitinni In Memoriam. „Þá var dauðarokkið allsráðandi, svo lá leiðin í fönkað rokk með Quicksand Jesus og svo elektrónískt rokk með Ensími. Ég fæ reyndar enn þá mikla rokkútrás með Dr. Spock þannig að ég hef ekki breyst í algjöran „púða“ þótt ég búi til og syngi poppaða músík í hjáverkum.“

Þjónar sem aukasjálf

Hvernig kom nafnið Paunkholm til? „Nafnið kom til í partíi fyrir margt löngu. Ég var eitthvað að pönkast í glensi við Georg Holm, bassaleikara Sigur Rósar, og þannig fæddist karakterinn Paunkholm. Ég bjó svo til Paunkholm-netfang sem ég nota enn þá og nú þjónar hann sem mitt aukasjálf til að dúndra út í kosmósinn músík sem passar ekki fyrir hin tónlistarverkefnin mín.“

- Auglýsing -

Hvað er svo fram undan hjá þér og Paunkholm? „Hugsanlega kemur plata frá Paunkholm á næsta ári en ég er í gírnum að semja fyrir Paunkholm þessa dagana. Ég mun að öllum líkindum fara í stúdíó fyrir jól og negla inn 3-4 lög og halda svo áfram á næsta ári,“ segir Franz sem er einnig á leiðinni í stúdíó með tónlistarkonu að hljóðrita hennar fyrstu plötu og að fara að hljóðrita með nýju rokkbandi sem rokkunnendur mun heyra meira af á næstunni. „Svo er á dagskrá að gefa út sjöttu plötu með Ensími í nánustu framtíð sem og nýtt efni með Dr. Spock. Já, svo stefni ég að því að gera tvær rokkmessur (tributes) áður en árið er liðið. Að lokum hvet ég bara lesendur Albumm.is að tékka á laginu og ef ykkur líkar að deila því með vinum og vandamönnum.“

Texti / Sigrún Guðjohnsen
Mynd / Jón Lindsay

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -