„Það hljómar eins og lélegur brandari að 20 ára afmælisdegi ólögmætrar innrásar í Írak sé “fagnað” af Alþjóða Stríðsglæpadómstólnum með því að gefa út ákæru á hendur Pútin forseta Rússlands fyrir að flytja um sex þúsund munaðarlaus börn af stríðssvæði.“ Svona byrjar aðsend grein frá Ástþóri Magnússyni sem birtist á Vísi í gær en greinin ber heitið Handtakið Davíð.
Ástþór Magnússon, margfaldur forsetaframbjóðandi, skrifaði í gær pistil á Vísi í gær þar sem hann krefst þess að Davíð Oddsson verði handtekinn vegna brota í starfi forsætisráherra en eins og flestir muna setti Davíð Oddsson, sem forsætisráðherra Íslands, ásamt Halldóri Ásgrímssyni, þáverandi utanríkisráðherra, Ísland á „lista hinna viljugra þjóða“ til stuðnings við innrásarstríð Bandaríkjanna á Írak 2003. Ástþór á það sameiginlegt með Davíð að báðir hafa þeir boðið sig fram til forseta en Davíð náði þó ívið betri árangri er hann bauð sig fram, þó hann hafi einungis fengið 13,7 prósent atkvæða gegn Guðna Th. Jóhannssyni, Andra Snæ Magnússyni og Höllu Tómasdóttur árið 2016.
Í pistlinum byrjar Ástþór á að skjóta föstum skotum á Alþjóðaglæpadómstólinn fyrir „tvískinnungshátt“. Þá kemur hann inn á þátt Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar í Íraksstríðinu en þeir studdu það.
„Með hátterni sínu og tvískinnungshætti s.l. tuttugu ár hefur þessi spillti dómstóll grafið undan réttarríkinu. Látið NATO nota sig til að rétta aðallega yfir afrískum leiðtogum á meðan stærstu glæpamenn mannkynssögunnar eru friðhelgir.
Glæpir Pútins fölna samanborið við stríðsglæpi George W. Bush og hans fylgissveina, m.a. Íslendingana Davíðs Oddsonar og Halldórs Ásgrímssonar sem studdu ólögmæta árás á Írak sem varð 1.2 milljónum að bana, þ.á.m. konur og börn sem voru myrt eða svelt í hel með beinum stríðsaðgerðum og efnahagsþvingunum. Milljónir sendir á flótta frá heimilum sínum, innrásarherinn þeirra stundaði pyntingar á föngum, opnaði fyrir straum hryðjuverkamanna inn í landið og skildi síðan Írösku þjóðina eftir í algjörri upplausn og berskjaldaða fyrir hryðjuverkum. Halldór er farin á vit feðra sinna og vonandi hefur fengið sína refsingu þar. Davíð, Bush og þeirra fylgisveinar leika enn lausum hala eins og ekkert hafi í skorist.“
Seinna í pistlinum segir Ástþór að þeir Davíð og Halldór hafi lýst yfir stuðningi við hernaðarbrölt Bandaríkjanna og að þeir hafi boðið íslenskar farþegarflugvélar til hergagnaflutninga.
„Í undirbúningi innrásarinnar á NATO fundi í Prague árið 2002 lýstu forsætisráðherra Davíð Oddsson og utanríkisráðherra Halldór Ásgrímsson yfir stuðningi Íslands við bandarískan hernað og innrás í Mið-Austurlöndum og buðu fram Íslenskar farþegaflugvélar frá Atlanta og Icelandair til hergagnaflutninga. Gögn frá utanríkisráðuneytinu sanna að á þessum tímapunkti höfðu þessir sömu menn vitneskju um að þarna var verið að fremja víðtæk fjöldamorð og þjóðernishreinsanir undir lygavef frá bandarísku leyniþjónustunni.“
Þá segir Ástþór frá því að hann hafi sent viðvörun til „allra starfstöðva Atlanta og Icelandair á Íslandi og erlendis, allra Íslenskra lögreglustöðva, ráðuneyta, alþingismanna og afrit til fjölmiðla.“
„Í meðferð málsins lagði ég fram skjöl til stuðnings þeirri staðreynd að með þátttöku í herflutningum breytist skilgreining flugfélaganna úr því að vera borgarlegt skotmarki yfir í hernaðarleg. Samkvæmt Geneva sáttmálanum um stríðsrekstur yrðu flugfélögin þannig orðin lögmæt skotmörk þeirra sem stríðið beinist að,“ skrifaði Ástþór en hann var handtekinn og fangelsaður aðeins nokkrum klukkustundum síðar að því er fram kemur í greininni. Bætti hann svo við að handtaka beri Davíð Oddsson: „Síðar var mér sagt af starfsmanni innan stjórnsýslunnar að skipun um mína handtöku hafi komið til Ríkislögreglustjóra úr forsætisráðuneytinu. Er ekki kominn tími á að handtaka þann Íslending sem misnotaði embætti sitt sem forsætisráðherra til að veita stuðnings Íslands við ólögmæta árás á fjarlæga þjóð og kóróna það svo með að gefa út skipun um að handtaka friðarsinna fyrir að benda á hvað stæði í alþjóðalögum um fyrirhugað athæfi ráðherrans.“
Aðsendu grein Ástþórs má lesa í heild sinni hér.