Síðustu mánuði hefur Austurbrú á Egilsstöðum haldið úti námsleið sem heitir Landneminn. Námsleiðin er fyrir flóttafólk frá Úkraínu en náminu lauk um daginn með ferðalagi nemana um Austurland.
Að sögn Austurfréttar var kennari námsleiðarinnar hin úkraínska Iryna Boiko og fór því kennslan fram á úkraínsku. Þar var kennd samfélagsfræði sem sniðin var að flóttafólki og innflytjendum. Tilgangur Landnemanst var sá að veita nemendunum upplýsingar og innsýn í mikilvæga þætta er snúa að atvinnu og búsetu á Íslandi. Þá var í námsleiðinni veittar gagnlegar upplýsingar um íslenskt samfélag, þjónustu og stofnanir sem og um ýmsa menningartengda þætti og daglegt líf hér á landi.
Ríflega tuttugu manns tók þátt í námskeiðinu en því lauk um síðastliðna helgi með ferðalagi um Austurland en ferðalagið var skipulagt af Austurbrú, Múlaþingi og Rótarýklúbbi Héraðsbúa. Var öllu flóttafólki frá Úkraínu boðið í ferðalagi, ekki aðeins þeir sem tóku þátt í námskeiðinu. Rótarý styrkti ferðalagið og útvegaði rútu, bílstjóra og sá um fararstjórn.
Fyrst stoppaði hópurinn á Fáskrúðsfirði þar sem tekið var á móti honum á Franska safninu og gegnið með fólkinu um sýninguna Frakkar á Íslandsmiðum. Eftir leiðsögnina um safnið var farið í Gallerí Kolfreyju þar sem starfsemin var kynnt og boðið upp á hressingu í boði sveitarfélagsins Fjarðabyggð.
Þá var haldið með hópinn á skíðasvæðið í Oddskarði í fallegu verði en þar voru hann upplýstur um praktíska hluti eins og leigu á búnaði, gjaldskrá og fleira í þeim dúr. Því næst fékk hópurinn nesti fyrir næsta áfanga en það var heimabakað bakkelsi sem nokkrar konur er starfa í Múlanum í Neskaupsstað bökuðu. Næsta stopp var Snæfellsstofa í Fljótsdal þar sem sagt var frá starfinu þar sem og Vatnajökulsþjóðgarði.
Og svo byrjaði fjörið. Kvöldverður var snæddur í boði Tehússins á Egilsstöðum og í kjölfarið var þar slegið upp veislu. Séra Kristín Þórunn Tómasdóttir, prestur í Egilsstaðaprestakalli og meðlimur í Rótarýklúbbi Héraðsbúa var meðal þeirra sem tóku lagið í veislunni en hópurinn setti upp ekta úkraínskt karókí, samkvæmt frétt Austurfréttar.
Lauk svo ferðinni með heimsókn í Vök Baths sem er við Fellabæ á Héraði en þar gat hópurinn slappað af eftir langt og skemmtilegt ferðalag um Austurlandið.
Svona ferðalag er afar mikilvægur þáttur í náminu að sögn Hrannar Grímsdóttir, náms- og starfsráðgjafa hjá Austurbrú en hún var verkefnastjóri Landnemans. „Við teljum að ferðalag eins og þetta geti haft mikið að segja fyrir aðlögun og vellíðan flóttafólks,“ segir hún. „Þarna fékk fólk tækifæri til að kynnast betur menningu og náttúru fjórðungsins, þau hittu fyrir margt fólk og fengu alls staðar hlýjar og góðar móttökur. Þau fengu upplýsingar frá fararstjórum um þjónustu, menningu og sögu samfélagsins og tækifæri til að spyrja. Einnig fengu þeir Íslendingar sem tóku þátt í ferðinni, á einn eða annan hátt, tækifæri til að hitta fólkið og kynnast því. Það kynntist betur innbyrðis, stækkaði félagsnetið og vonandi víkkaði það út þægindarammann!“ Sagði Hrönn í samtali við Austurfrétt.