Íslensk móðir var sýknuð í Héraðsdómi Reykjaness á dögunum en hún var ákærð fyrir brot á barnaverndarlögum og líkamsárás. Þann 9 maí í fyrra barst lögreglu tilkynning um hugsanlegt heimilisofbeldi á heimili konunnar. Þegar lögregla kom á staðinn tók fyrrum eiginmaður konunnar á móti þeim og sagði hana hafa sparkað í son þeirra og lamið hann í síðuna. Drengurinn bæði sagði frá árásinni og sýndi með látbrögðum hvernig móðir hans lamdi hann. Hann sýndi lögreglu áverka þessu til staðfestingar. Móðirin var þá handtekin og flutt á lögreglustöð, við blástursmælingu mældist áfengismagn 1,97 o/oo. Til samanburðar er ökumaður talinn óhæfur til aksturs við 0,2 o/oo.
Fyrrum eiginmaður konunnar sagði hana hafa verið við drykkju allan daginn, hann mældist ekki undir áfengisáhrifum. „Hann skýrði lögreglumönnum frá því að ákærða hafi verið við drykkju allan daginn. Hann hafi verið að elda matinn þegar hann hafi heyrt grát í herbergi sonar þeirra og farið til að athuga hvað væri í gangi. Ákærða hafi þá viðurkennt að hafa sparkað í son þeirra. Þegar fyrrum eiginmaður ákærðu og sonur þeirra hafi verið að borða hafi ákærða sest hjá þeim og þá hafi fyrrum eiginmaður ákærðu séð hana slá son þeirra í síðuna og hann þá farið að gráta. Fyrrum eiginmaður ákærðu hafi þá hringt í Neyðarlínuna,“ segir í dómi Héraðsdóms Reykjaness.
Daginn eftir atvikið gaf konan skýrslu hjá lögreglu. Hún hélt fram sakleysi sínu og sagðist hafa verið að klæða son sinn í náttföt þegar hún klóraði hann óvart í vinstri síðu, hún sé með langar neglur. Hún sagðist ekki hafa sparkað í son sinn heldur hafi hún verið að leik þegar hún meiddi hann fyrir slysni. Kvaðst hún þá ekki hafa verið undir áhrifum áfengis og segist einungis hafa fengið sér eitt glas af áfengi.
Faðir drengsins fór með hann til læknis daginn eftir atvikið. Samkvæmt læknisvottorði var hann með fjólublátt mar, 2×2 cm á stærð, á miðbaki vinstri síðu. Engir sjáanlegir áverkar voru á kvið drengsins.
„Ákærða neitar sök og kvaðst hafa sótt son sinn á leikskóla kl. 15:00 umræddan dag og fyrrum eiginmaður hennar hafi komið heim kl. 17:00. Hann og ákærða hafi farið að rífast og hún þá farið inn í herbergi með son þeirra. Þau hafi verið í ,,flugvélaleik“ þar sem hann hafi verið flugvélin. Ákærða hafi verið með hnéð við mitti hans og óvart meitt hann en það hafi ekki verið alvarlegt. Eftir það hafi þau haldið leiknum áfram. Nokkru seinna hafi hún verið að klæða son sinn í náttföt en hann hafi ekki viljað vera kyrr og ákærða þá kitlað drenginn. Hún hafi verið með langar neglur og óvart klórað drenginn sem hafi fengið litla skrámu. Drengurinn hafi farið að gráta og þá hafi fyrrum eiginmaður ákærðu komið og spurt hana hvað hún væri að gera við barnið. Þegar þetta hafi gerst hafi fyrrum eiginmaður ákærðu verið inn í herbergi eða inn á baðherbergi. Hann hafi síðan hringt í lögregluna og þá líklega til að hefna sín á ákærðu. Ákærða kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis og verið búin að drekka um 200 ml af vodka en hún hafi byrjað að drekka um kl. 17:00 eða eftir að hún hafi sótt son sinn á leikskólann. Ákærða kvaðst alls ekki hafa ætlað að meiða hann. Þegar atvik urðu hafi ákærða og faðir drengsins verið í hjónabandi en þau séu nú skilin.“
Drengurinn lýsti því í Barnahúsi að móðir hans hafi meitt hann með hendinni og benti á vinstri síðu og maga. Hann segir hana einnig hafa sparkað í hann og að það hafi verið vont. Drengurinn sagði móður sína hafa sagst ætla að berja hann og að hún hafi oft meitt hann. Hann sagði föður sinn líka hafa meitt sig. „Brotaþoli lýsti því einnig að faðir hans væri að lemja brotaþola með hendinni í rassinn og hausinn og það hafi gerst mörgum sinnum. Þegar faðir brotaþola lemji hann í bossann taki faðir hans buxur brotaþola niður og hann meiði sig í bossann.“
Drengurinn var tæplega fimm ára þegar atvikið átti sér stað og sagði hann fyrir dómi að móðir hans hafi lamið hann oftar en einu sinni. Þar sem ekkert vitni sá ofbeldið gerast segir í dómnum að ekki sé hægt að dæma móðurina seka. Hún lýsi atburðum eins bæði í skýrslutöku og fyrir dómi. Konan var sýknuð og allur sakakostnaður greiddur úr ríkissjóði.