Lögreglu barst tilkynning um þrjá aðila sem voru að ýta bifreið í Hlíðunum í gærkvöldi. Tilkynnandi taldi mennina vera undir áhrifum áfengis en þegar lögregla kom á vettvang kom í ljós að ekkert athugavert var við aðilana. Ökumaður var látinn blása í öndunarprófsmæli og mældist 0,0%. Ekki liggur fyrir hvers vegna mennirnir höguðu sér svo undarlega en málið var leyst á vettvangi.
Í Breiðholti tók lögregla upp klippurnar og fjarlægði skráningarmerki af ökutæki. Ástæðan var vanræksla á aðalskoðun. Þá stöðvaði lögregla þrjá ökumenn vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna. Einn þeirra reyndist vera án ökuréttinda en málið var afgreitt með vettvangsskýrslu. Að öðru leyti var nóttin róleg ef marka má dagbók lögreglu að þessu sinni.