Hljómsveitin Pale Moon var að senda frá sér sitt fyrsta tónlistarmyndband en það er við lagið „Exile.” Myndbandið var tekið upp einn góðviðrisdag í apríl í miðbæ Reykjavíkur.
Mikið umstang fylgdi myndbandinu og yfir fimmtíu manns tóku þátt. Sauma þurfti búninga, loka götu, gulu baðkari komið fyrir á Bríetartúni, matarvagni plantað niður, límonaðistandi hent upp og svo lengi mætti telja.
Myndbandið, sem er ansi magnað, var tekið upp í einni samfelldri töku og ekkert klippt. Því þurfti allt að ganga upp. Runan var æfð og tekin upp minnst tíu sinnum.
Myndbandið var unnið í samstarfi við framleiðslufyrirtækið Blind Spot en Viktor Aleksander Bodanski tók upp og leikstýrði. Búningahönnun, grafík og útlit var í höndum Natösju Sushchenko, en hún er annar helmingur Pale Moon.
Auðveldlega gekk að fá mannskap í myndbandið en svo skemmtilega vill til að flestir í myndbandinu eru einnig tónlistarfólk en það er bara útaf því að sveitin þekkir mikið af öðru tónlistarfólki. Lagið Exile má finna á þriggja laga smáskífuni Dust of Days sem dúettinn gaf frá sér nýverið.
En lagið var hljóðritað í Fljótshlíðinni, hljóðblandað af Arnari Guðjónssyni og tónjafnað af Bassa Ólafs.