Tíu ökumenn eru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina. Tveir eru sakaðir um akstur án ökuréttinda og fimm gista fangageymslur.
Í miðborginni var tilkynnt um slagsmál fyrir utan skemmtistað, lögregla hafði þar afskipti af einum aðila sem átti erfitt með mannleg samskipti. Önnur áþekk tilkynning um líkamsárás barst lögreglu og var einn færður á lögreglustöð en látinn laus eftir samtal. Lögregla stöðvaði þá átök á milli tveggja manna í miðbænum en annar þeirra fylgdi ekki fyrirmælum um að yfirgefa staðinn og sló til lögreglu, hann gistir fangageymslur. Starfsmaður í verslun hafði samband við lögreglu og bað um að manni yrði vísað út. Hann neitaði að gefa upp upplýsingar um nafn sitt og kennitölu en gaf sig að lokum.
Skemmdarverk voru gerð á strætóskýli og allt gler brotið. Einnig barst lögreglu tilkynning um skemmdarverk við skóla þar sem strákar voru að skemma grindverk. Rúður voru brotnar á veitingastað og var gerandi enn á staðnum þegar lögreglu bar að.
Lögregla rannsakar innbrot á bensínstöð.