Íbúi í miðbæ Reykjavíkur hafði samband við lögreglu í gærkvöldi eftir að hann sá að brotist hafði verið inn heima hjá honum. Íbúinn var óviss hvort einhverju hefði verið stolið en málið er til rannsóknar hjá lögreglu. Síðar um kvöldið lét annar þjófur til skara skríða þegar hann braust inn í bifreið í hverfi 105 og stal veski.
Í sama hverfi skömmu síðar stöðvaði lögregla ökumann sem grunaður er um akstur undir áhrifum áfengis. Maðurinn var látinn laus að lokinni sýnatöku. Á lögreglustöð var lögreglu gert viðvart um enn eitt innbrotið, að þessu sinni í verslun. Þjófarnir voru fljótir að forða sér og voru á bak og burt þegar lögreglu bar að garði. Þá tilkynnti eigandi hlaupahjóls um þjófnað á því. Eigandinn hafði sett staðsetningarbúnað í hlaupahjólið sem gerði lögreglu kleift að hafa upp á hjólinu skömmu síðar með aðstoð eiganda.