Togarinn Áskell ÞH-48 hefur verið sviptur veiðileyfi í fjórtán daga, frá 1.maí til 14.maí næstkomandi. RÚV greindi frá.
Veiðieftirlitsmaður Fiskistofu notaðist við dróna til þess að góma bátsmenn við brottkast. Dróninn flaug yfir togaranum í 48 mínútur og á þeim tíma var 74 fiskum hent aftur í sjóinn en brottkast hefur tíðkast lengi. Samkvæmt lögum á að landa öllum afla sem veiddur er, þá á að vigta hann og skrá. Fiskistofa telur málið vera alvarlegt brot en ekki sé hægt að úrskurða um hvort ásetningur hafi verið til staðar en ljóst þykir að um alvarlegt aðgæsluleysi sé að ræða. Talið er að ávinningur hljótist af þessu og er brotið því flokkað sem alvarlegt.
Landhelgisgæslan hefur kært brotið til lögreglustjórans á Suðurnesjum.