„Klukkan 10:50 Annar í páskum voru 2 menn að reyna brjótast inn í kjallarann hjá mér á Garðsenda. Ég kom að þeim. Annar í svartri peysu og hinn í ljósgrárri báðir með húfu og sólgleraugu. Ég hringdi í lögregluna. Síðustu helgi voru hér á ferli menn að ganga á bíla í götunni um miðja nótt. Lögreglan hvetur fólk að tilkynna ef það verður vart við svona háttsemi.“ Svo hljóðar færsla sem kona nokkur setti í grúppu Háaleitis- og Bústaðahverfis á Facebook.
Í samtali við Mannlíf segir konan, sem ekki vill vera nafngreind, að hún hafi komið að mönnunum tveimur þar sem þeir voru að eiga við kjallarahurðina í morgun. „Ég kom að þeim að innan og talaðu við þá í gegnum glerið á hurðinni. Þeir voru að fikta við læsinguna,“ sagði konan og hélt áfram. „Ég spurði þá hvað þeir væru að gera og þá kom hik á þá og spurðu hvort Villi væri heima. Ég sagði að enginn Villi byggi hér og þá sagði hann Villi má fokka sér. Ég hringdi á lögregluna og þeir bókuðu þetta en gerðu ekkert annað þar sem engu var stolið og ekkert skemmt.“
Segir konan ennfremur að lögreglan bóki svona tilkynningar en geri ekkert. „Það hafa verið mannaferðir undanfarið í götunni á nóttunni um helgar. Ég og fleiri í götunni erum með myndavélar. Þá hafa aðilar verið að ganga á bîla og hurðir hjá fólki. Ég hef hringt á lögregluna og þeir bara bóka þetta og gera ekkert.“
Bætti hún því við að lokum að mennirnir hefðu greinilega báðir verið á einhverjum efnum. „Þessir menn voru greinilega á einhverjum efnum. Allir bílar heima dregið frá gluggum og ljós kveikt.“