Það á ekki af Austfirðingum að ganga þessa dagana. Nú þegar snjó- og krapaflóðahættan er úr sögunni og hætt er að snjóa er það rigningin sem ógnar. Ákveðið hefur verið að framlengja gulri viðvörun fram undir morgun 11. apríl.
Austurfrétt segir frá því að Veðurstofa Íslands hafi framlengt gula viðvörun vegna úrkomu á Austfjörðum þar til klukkan fjögur í fyrramálið, þriðjudaginn 11. apríl.
Áður hafði viðvörunin gilt á páskadag en átti að falla úr gildi snemma í morgun. Í litlum skrefum var henni svo framlengt þar til um hádegi í dag en þá var hún framlengd til klukkan fjögur í fyrramálið.
Varað er við rigningu og vatnavöxtum sem geta valdið skriðuföllum eða grjóthruni. Klukkan þrjú í dag var sólarhringsúrkoman á Fáskrúðsfirði komin í tæpa 60 mm.
Samkvæmt yfirliti Vegagerðarinnar hafa orðið skemmdir á vegum vegna vatnavaxta. Á Breiðdalsheiði hefur runnið úr vegunum og upp í Norðurdal í Fljótsdal og eru vegfarendur þar um slóðir beðnir um að fara varlega.