Halldór Halldórsson heimsótti nágranna sinn kvöld eitt í apríl og lá greinilega þungt á honum. Greiddi hann nágrannanum peningaskuld sína við hann og sagðist nú loks hafa fundið morðingja dóttur sinnar. Hvarf hann svo í myrkrið. Systir Halldórs, Anna, bjó með bróður sínum en þegar hún kom heim eftir útstáelsi voru nýkeyptar matvörur í eldhúsinu sem og málning og tveir málningaburstar. En enginn Halldór. Hann fannst aldrei aftur.
Þetta gerðist þann 1. apríl 1959 í Vancouver, Kanada. Ekki er mikið vitað um Halldór eða systur hans Önnu en þau voru íslensk og bjuggu í Vancouver. Í Lögbergi-Heimskringlu var skrifað um hið dularfulla hvarf Halldórs árið 1960 eftir að úrklippa var send á blaðið, frá frétt morgunblaðs í Vancouver. Hér fyrir neðan má lesa umfjöllunina:
Íslendingur hverfur
Blaðinu barst úrklippa úr morgunblaðinu Province í Vancouver, dagsett 21. marz, þar sem sagt er frá undarlegu hvarfi manns að nafni Halldór Halldórsson, 62 ára að aldri, sem af nafninu að dæma virðist vera íslenzkrar ættar. Hann átti heima í fátækrahverfi við sjávarsíðuna, sem nefnist “The Waterfront“, og er hluti af Burnaby. I hverfinu eru 139 híbýli af furðulegustu gerð, og búa þar um 200 manns í leyfisleysi (squatters), fólk, sem ekki á í önnur hús að venda. Þangað liggur mjór stígur ofan úr borginni. Þar er hvorki rafmagn, vatnsleiðslur né sími.
Kvöldið 1. apríl 1959 kom Halldór Halldórsson til nágranna síns, Dan Morgans, og var honum auðsjáanlega þungt fyrir brjósti; hann greiddi Mr. Morgan $10, sem hann skuldaði honum og sagði síðan: „Dan, nú hefi ég loksins eftir allan þennan tíma komizt að því, hver myrti dóttur mína. Ég ætla upp í borgina að gera eitthvað í því máli.“ Síðan hvarf hann út í myrkrið og hefir ekki sézt síðan. Fréttaritarinn furðar sig mikið á því, að ekki skuli hafa orðið heyrum kunnugt um hvarf þessa manns, að lögreglan hafi engar skýrslur um hann né dóttur hans. Hann leitaði því frétta hjá nágrönnum Halldórs, og voru þeir áhyggjufullir vegna hvarfs hans, því þeir þekktu hann sem hæglátan en mannblendin mann, og þeir furða sig á því, að ekki skuli hafa verið grennslazt neitt um hvarf hans, en flestir eru þeir þeirrar skoðunar, að yfirvöldin láti sig lítið skipta afdrif fólksins í þessu hverfi.
Þeir muna eftir stúlkunni, sem bjó ein í kofa, sem nefndist „The Ivy Nook“. Hún hafði langt svart hár, er lék laust um herðar hennar. Kofinn er nú í eyði. Fréttaritarinn fór til heimilis Halldórs, en þar býr systir hans, Miss Anna Halldórsson, á sjötugs aldri. Hún þykist viss um, að bróðir sinn hafi ekki farið burt sjálfkrafa, að hann hafi verið burtnuminn eða myrtur. Hún segir, að 1. apríl hafi hann farið í pósthúsið í North Burnaby og sótt stjórnarstyrkinn sinn, ávísun fyrir $72. Síðan keypti hann matvæli fyrir $1.50 og tvo málningarbursta og málningu. Þegar hann kom til baka, var systir hans ekki heima, en þegar hún kom heim, voru matvælin og málningarvörurnar þar, en bróður sinn hefir hún ekki séð síðan. Hún segir, að hann hafi aldrei sótt sparifötin sín né bátinn sinn, sem honum hafi þótt vænt um og verið hreykinn af.
Miss Halldórsson virtist lítið vita um dótturina, en hún staðhæfir, að hún hafi tilkynnt lögreglu Vancouverborgar og R.C.P.M. í Burnaby um hvarf bróður síns. Hvorugt lögregluliðið hefir skýrslur um þetta og málinu virðist lokið. En fólkinu í fátækrahverfinu við sjávarsíðuna er tíðrætt um Halldór Halldórsson, hið undarlega hvarf hans og um hina svarthærðu dóttur hans.
Baksýnisspegill þessi birtist fyrst á vef Mannlífs þann 30. september í fyrra.