Helga Óskarsdóttir, einn af frumkvöðlum Waldorfstefnunnar á Íslandi, er látin. Hún var meðal þeirra sem stofnuðu fyrsta leikskólann sem starfaði eftir stefnunni og var auk þess einn stofnanda Waldorfskólans Sólstafa. Hún lést aðfaranótt páskadags, þann 9 apríl en greint var frá andláti hennar á Facebook síðu Sólstafa.
Waldorfstefnan er byggð á speki Rudolf Steiner og gengur út á samspil manna og náttúru. Í starfseminni er lögð áhersla á myndlist, dans og tónlist en auk þess er kennsluáætlun gerð út frá þroskastigi hvers barns. Helga starfaði sem kennari við skólann Sólstafi frá stofnun hans og fram til ársins 2020 en þá steig hún til hliðar vegna veikinda.
Færsla Sólstafa:
„Helga Óskarsdóttir, einn af stofnendum Sólstafa og frumkvöðull Waldorfstefnunnar á Íslandi, lést aðfaranótt páskadags, þann 9. apríl sl.Við í skólanum og leikskólanum erum óendanlega þakklát fyrir allt hennar brautryðjendastarf í þágu kærleiksríkrar menntunar í anda Waldorfuppeldis.Helga var einn af stofnendum fyrsta Waldorfleikskólans á Íslandi og síðan einnig Waldorfskólans Sólstafa, árið 1994.Helga starfaði sleitulaust í skólanum þar til hún steig til hliðar árið 2020 vegna veikinda. Við sem störfum hér í dag njótum góðs af hjartahlýju hennar, listfengi og verklagni, sem hún gæddi skólasamfélagið okkar svo ríkulega af og hennar kærleiksríka vera lifir áfram í öllu starfi skólans.Kennarar og starfsfólk Sólstafa votta fjölskyldu og ástvinum Helgu innilega samúð sína.„Ef ég sný augliti mínu til sólarinnar talar ljós hennar til mín í ljóma andans, fyllt af náð sem vefur sig í gegnum verur vídda alheimsins. Er ég skynja í hjarta mínu, mælir andinn sitt eigið sanna orð um manneskjuna, elskaðri af honum um alla tíð og eilífð.
Þegar ég horfi upp á við sé ég í björtum sólarblossa hið volduga hjarta víddanna. Þegar ég horfi inn á við finn ég hinn hlýja slátt hjartans, sem er hin mennska sól í reifum sálar.“
Úr ,,Two cosmic verses“ eftir Rudolf Steiner“
Mannlíf sendir aðstandendum Helgu samúðarkveðjur.