Hin afkastamikla og vinsæla sjónvarpskona og framleiðandi, Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, var gestur Einars Bárðarsonar í hlaðvarpinu Einmitt.
Ragnhildur Steinunn hefur kynnt eða verið viðloðin Söngvakeppnina meira og minna síðan árið 2007; er jafnan með mörg járn í eldinum, enda þolir hún ekki leti.
Ragnhildur Steinunn segist alltaf hafa verið næm á umhverfi sitt; fljót að lesa í fólk og stemningu.
„Ég missti mömmu mína mjög ung og þurfti að þroskast mjög hratt og vinna úr mínum tilfinningum og föður míns. Ég hef náð að nýta mér þetta og læra af mínum mistökum.“
Á lokaári í sjúkraliðanámi fékk Ragnhildur Steinunn fyrsta tækifærið til að vera kynnir í Söngvakeppninni.
„Ég var í verknámi á Landspítalanum og þar voru sjúklingarnir alltaf að segja mér að ég væri svo lík þarna stelpunni í Söngvakeppninni. Við gætum verið systur. Ég púllaði þann leik þannig að það væri nú gaman og spurði hvernig þá hvernig hún væri að standa sig.“
Ragnhildur Steinunn segir að lykillinn að því að bæta sig sem manneskja í sjónvarpi sé að horfa á það sem maður hefur gert.
„Ég læri mest af því að klippa efnið sjálf. Ég hef verið að klippa viðtöl fyrir Sjónvarpskeppina fram á nótt. Þetta er ekki þannig að ég mæti bara í smink og svo í útendingu. Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir hvað við erum í raun fá að vinna stórt verkefni. Við fimm sem erum í framkvæmdastjórninni erum mánuð fyrir keppni að vinna öll kvöld. Þetta er bara þannig. Maðurinn minn bara veit það.“
Framundan er sýning þáttaraðar á RÚV sem Ragnhildur Steinunn hefur unnið að undanfarin þrjú ár og nefnist Tvíburar, en sjálf eignaðist hún tvíbura fyrir fjórum árum síðan.
„Ég talaði við meira en 70 tvíbura til að fá sem víðustu innsýn inn í líf tvíburaforeldra, þ.m.t. heimilismyndbönd. Sýnt verður frá tvíburafæðingu í fyrsta sinn í íslensku sjónvarpi og við fylgjumst m.a. með tvíburaforeldrapari sem mun heilla þjóðina upp úr skónum,“ segir Ragnhildur Steinunn.