Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

„Það voru allir í hljómsveit, fannst manni“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Myndbönd og upptökur með hljómsveitinni Vínyl sem naut mikilla vinsælda á Íslandi á  tíunda áratug síðustu aldar, hafa aftur litið dagsins ljós en sumt af efninu er óútgefið.

Á tíunda áratugnum var tónlistarlífið á Íslandi afar líflegt og hljómsveitir á borð við Maus, Botnleðju og Kolrössu krókríðandi á meðal vinsælustu sveitanna. Tvíburabræðurnir Kristinn og Guðlaugur Júníussynir voru áberandi á senunni en þeir fóru fyrir rokksveitinni Vínyl ásamt Agli Tómassyni, Arnari Snæ Davíðssyni, Þórhalli Bergmann og Arnari Guðjónssyni.

Maðurinn á bak við tjöldin var kvikmyndagerðarmaðurinn Haraldur Sigurjónsson en hann skaut og vann allt myndefni fyrir sveitina. Tónlistarmyndbönd og tvennir tónleikar fóru í loftið á RÚV og Stöð 2 á árunum 1996 til 1998 en hafa ekki sést síðan þá. Allt endaði þetta ofan í kassa þar til nú, því Haraldur og bræðurnir hafa verið að dusta rykið af efninu og upptökum, sem hafa sumar ekki komið fyrir sjónir almennings áður.

„Það var bara enginn vettvangur fyrir svona hluti þá, svo þetta endaði allt ofan í kassa og inn í geymslu í 20 ár og hefur verið þar til dagsins í dag,“ segir Haraldur um myndböndin. „Þarna inn á milli eru lög með Vínyl sem hafa aldrei komið formlega út, þannig að þetta er algjör fjársjóður.“

Hljómsveitin Vínyll var stofnuð árið 1996 af þeim bræðrum Kristni og Guðlaugi og var með vinsælli sveitum á landinu. Sjálfir segja þeir bræður að þetta hafi verið góður tími og gaman að taka þátt í íslensku tónlistarsenunni enda hafi hún verið fjölbreytt og kraftmikil.

En hvernig varð sveitin eiginlega til?

„Við gerðum eina plötu og vantaði einhverja til þess að spila með okkur „live“, þannig að við fengum Arnar Guðjónson gítarleikara og Þórhall Bergmann hljómborðsleikara til liðs við okkur og spiluðum saman á nokkrum tónleikum, og fyrsta lagið okkar, Hún og þær, rataði í Blossa, kvikmynd leikstjórars Júlíusar Kemp,“ segir Kristinn um upphaf sveitarinnar og bætir við að það hafi orðið nokkur skipti á meðlimum hennar, eins og gengur og gerist, meðal annars hafi Georg Hólm spilað um tíma með henni, en í dag þekki hann eflaust margir sem bassaleikarann í Sigur Rós.

- Auglýsing -

Stundum algjört rugl, en alltaf gaman

Eins og fyrr segir skaut Haraldur og vann allt myndefni fyrir sveitina. Spurður hvernig hafi eiginlega verið að vera eins og fluga á vegg hjá Vínyl og hvort hann hafi alltaf verið með myndavélina á lofti segist Haraldur bara hafa hangið með vinum sínum og því legið beinast við að taka þetta upp.

„Ég hafði átt myndavél í nokkur ár og gert alls konar „stuff“, til dæmis heimildamyndina Ný-rokk í Reykjavík árið 1994 og fylgt eftir sveitum eins og Sororicide, Kolrössu, Stjörnukisa og Pulsunni. Sem sagt hékk með vinum mínum og tók upp slatta á tónleikum, eins og Kóparokki og í Fellahelli og ég hélt þessu bara áfram með Gulla og Kidda.“ Myndbönd með Vínyl og Jetz, sem var annað band sem bræðurnir voru í, urðu fyrstu tónlistarmyndböndin sem hann bjó til en eftir það skellti hann sér í nám í kvikmyndaskóla í New York.

- Auglýsing -

„Það var algjört ævintýri að hanga með bræðrunum, enda með eindæmum skemmtilegir strákar. Stundum var það algjört rugl en það var alltaf gaman og alltaf mikið hlegið. 90’s-tímabilið var bara rosalegt tónlistarlega séð,“ segir hann. „Það voru allir í hljómsveit, fannst manni.“

Nú, þegar myndböndin og upptökurnar eru að koma fyrir sjónir almennings, sumt í fyrsta sinn, er ekki úr vegi að spyrja hvort Vínyll muni koma saman aftur? „Við höfum verið að vinna fullt af efni undanfarið,“ svarar Kristinn, „þ.e. meðlimirnir sem voru í seinni útgáfunni af hljómsveitinni sem starfaði árunum 2002 til 2005, en þá skipuðum við Gulli bandið og Þórhallur Bergmann, Arnar S. Davíðsson og Egill Tómasson. Hver veit nema eitthvað af því efni komi út í framtíðinni,“ segir hann leyndardómsfullur.

Félagarnir eru í ítarlegra viðtali á albumm.is þar sem jafnframt er hægt að nálgast upptöku

Texti / Sigrún Guðjohnsen

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -