Einn ástsælasti leikari Íslands, Árni Tryggvason lést í gær, 99 ára gamall.
Árni var um árabil einn vinsælasti leikari þjóðarinnar, hvort sem var á sviði, sjónvarpi eða á hvíta tjaldinu. Frægastur var hann fyrir hlutverk sitt sem Lilli Klifurmús í Dýrin í Hálsaskógi þar sem hann þótti fara algjörlega á kostum en Lilla lék hann tvívegis. Einnig lék hann í þó nokkrum kvikmyndum á borð við Húsið, Djöflaeyjan og Agnes. Þá þótti hann eftirminnilegur í hlutverkum sínum í Áramótaskaupinu sem hann lék í nokkrum sinnum.
Örn Árnason, sonur Árna skrifaði eftirfarandi tilkynningu á Facebook vegna andláts föður síns:
„Kæru ættingjar og vinir.
Þá er tjaldið fallið í síðasta sinn hjá pabba okkar Árna Tryggvasyni leikara. Hann kvaddi þennan heim í hádeginu þann 13.apríl uppi á Eir, sem var hans dvalarstaður og foreldra okkar hin síðustu ár. Pabbi fæddist 19 janúar 1924 og náði því að verða 99 ára gamall. Mamma lést í júli á síðasta ári, 94 ára og nú dansa þau loksins valsinn sinn saman. Kærar þakkir til Eirar fyrir umönnun foreldra okkar hin síðustu ár. Pabbi var alla tíð mikil aðdáandi Samuels Becketts leikritaskálds og lék tvisvar í leikriti hans „Beðið eftir Godot“ sem hann hafði miklar mætur á. Beckett fæddist 13.apríl og pabbi okkar dó 13.apríl. Godot kallar menn til sín þegar tíminn er kominn. Hann var 13.apríl fyrir pabba.
Jóna Magga, Svanlaug og Örn.“