Skemmtanahald fór að mestu leiti friðsamlega fram á höfuðborgarsvæðinu í nótt samkvæmt dagbók lögreglu. Eitt og annað bar þó á góma á öðrum vígstöðum.
Í miðbænum var tilkynnt um unga drengi sem virtust ósáttir við helgarfríið þar sem þeir sáust fara inn í grunnskóla. Er lögreglan mætti á vettvang var engan að sjá en augljóst að búið var að fara inn og valda eignarspjöllum. Einnig var aðili grunaður um ölvun við akstur en ekki náðist að standa hann að verki. Var hann vistaður í fangageymslu og er málið komið á borð rannsóknardeildar. Þá barst lögreglu tilkynning um mann sem var að reyna að komast inn í bíla í einum af bílastæðahúsum borgarinnar. Ekki er vitað hvort hann hafði eitthvað upp úr krafsinu.
Í Hafnarfirðinum var aðili handtekinn vegna óspekta og vistaður í fangageymslu fyrir brot á áfengislögum og fyrir að fara ekki eftir fyrirmælum lögreglu.
Á lögreglustöð 4, sem sinnir útköllum í Árbæ, Grafarholti, Grafarvogi, Norðlingaholti, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi er sagt frá tveimur furðulegum málum. Þar var aðili vistaður vegna ástands. Ekki kom fram í dagbók lögreglunnar hvort ástandið tengdist áfengi eða fíkniefnum eða ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs. Aukreitis barst tilkynning um sölu fíkniefna málið átti ekki við rök að styðjast þar sem sölumaðurinn reyndist vera hárgreiðslumaður, samkvæmt dagbókinni en eins og allir vita geta hárgreiðslumenn ekki selt fíkniefni.