Karlmaður sem var á ferð í miðbænum í gærkvöldi datt á höfuðið með þeim afleiðingum að hann hlaut höfuðáverka. Lögregla var kölluð til en þá kom í ljós að maðurinn var ölvaður. Var hann í fluttur á bráðadeild til aðhlynningar. Síðar um kvöldið var lögregla kölluð út vegna mannst sem hafði pantað sér veitingar á veitingastað í hverfi 108. Þegar kom að því að greiða neitaði hann að gera það og verður hann því kærður fyrir fjársvik. Nokkru síðar barst lögreglu tilkynning um sama aðila á öðrum veitingastað í hverfi 108 en þar hafði hann endurtekið leikinn. Maðurinn var látinn gista í fangaklefa lögreglu en hann var í annarlegu ástandi.
Starfsfólk á hóteli í miðbænum hringdi óttaslegið á lögreglu eftir að maður hafði sýnt af sér ógnandi hegðun. Engar kröfur voru gerðar og málið leyst á vettvangt. Í Laugardalnum handtók lögregla mann sem hafði reynt að opna bíla. Var sá látinn gista í fangaklefa lögreglu. Þá sinnti lögreglu hefðbundnu umferðareftirliti og stöðaði meðal annars einn ökumann sem reyndist vera ölvaður.