Kvikmyndin Auður verður forsýnd í Bíó Paradís þann þann 25 apríl.
Að sögn leikstjórans, Lýðs Árnasonar er um að ræða leikna kvikmynd í fullri lengd. „Þetta er dramatísk saga sem fjallar um unga íslenska konu sem útskrifast sem atvinnukafari í útlöndum og sannfærir skólafélagana um að koma með sér til Íslands til að kanna afdrif ömmu sinnar, Auðar. Sú var talin geðveik og fórst með skipi sem átti að flytja hana á hæli. En ekki er allt sem sýnist.“
Lýður skrifaði handritið og leikstýrir myndinni en hún hefur verið sex ár í vinnslu. Tökur fóru fram í Danmörku, Hafnarfirði, Bolungarvík, Jökulfjörðum, ofansjávar og neðansjávar og í „núi og þái,“ eins og Lýður orðar það.
Aðalhlutverk eru í höndum Sigríðar Lárettu Jónsdóttur, Önnu Hafþórsdóttur, Ingumaríu Eyjólfsdóttur, Víkings Kristjánssonar og Ævars Arnar Jóhannessonar.
Lýður sagði að erfiðast hafi verið að leikstýra neðarsjávartökunum. „Benedikt Ólafsson, Hnífsdælingur sá um neðansjávartökurnar og erfiðast var að leikstýra þeim hluta en þá hélt Gummi Sig í lappirnar á mér meðan ég dýfði hausnum í kaf og öskraði.“
Auður verður forsýnd á morgun, 25. apríl klukkan 21.