Enn hækkar bátur dagsins á Subway. 12 tommu bátur dagsins hefur hækkað um rúm 11 prósent frá því í desember 2022. Kostar í dag 1999 krónur en í desember 2022 kostaði hann 1799 krónur. Eins hefur 6 tommu bátur dagsins hækkað um tæp 8 prósent, kostar í dag 1399 krónur en kostaði í lok ársins 1299 krónur.
Inn á grúbbunni Vertu á verði á Facebook vekur Jóhann athygli á því að á 18 mánaða tímabili hafi bátur dagsins hækkað um 66 prósent. Í byrjun nóvember 2021 kostaði 12 tommu bátur dagsins 1199 krónur en kostar í dag 1999 krónur.
Mannlíf leitaði viðbragða hjá Subway og spurði út í hvers vegna búið væri að hækka verð svo fljótt. Neðangreint svar barst frá Svanhildi Erlu Traustadóttur markaðsfulltrúa hjá fyrirtækinu:
Subway hefur á þessu ári hækkað verðið á máltíð dagsins um 7,7 prósent á 6” tommu máltíð og 11,1 prósent á 12” máltíð. Ástæða hækkunar er hækkun á öllum aðföngum og öðrum rekstrarkostnaði, t.a.m. á hráefni, flutningskostnaði og launakostnaði. Þrátt fyrir þessa breytingu þá bjóðum við neytendum upp á eitt hagkvæmasta verðið á markaðnum miðað við sambærilegar vörur og erum stolt af því.