Miðvikudagur 22. janúar, 2025
-0.3 C
Reykjavik

Þegar Hemmi Gunn mætti ekki í beina útsendingu: „Þetta var um páska og ég orðinn yfirkeyrður“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það eru páskar 1994 og vinsælasti þáttur Íslands að hefjast í beinni útsendingu. Þjóðin er nánast öll sem límd við skjáinn en þessi þáttur verður öðruvísi en þeir hafa verið því þáttastjórnandinn mætir ekki. Þess í stað biður Vala Matt áhorfendur í sal og heima í stofu velkomna og tilkynnir að hún muni hlaupa í skarðið fyrir þáttastjórnandanum í þetta skiptið. Hemmi Gunn var fallinn.

Það var bara einn Hemmi Gunn. Ljósmynd: Helgarblað DV.

Í næsta þætti tóku áhorfendur andköf því aftur virtist hann fallinn en Unnur Steinsson birtist í stjórnandasætinu. Síminn hringir og á línunni er Hemmi Gunn. Segist hann vera hátt uppi í augnablikinu og spurði Unni hvort hún gæti leyst hann aðeins af. En hann reyndist ekki vera fallinn, heldur var hann staddur í flugvél á leið í fallhlífastökk. Kom hann svo svífandi inn í þáttinn, öllum til mikillar gleði.

Birgir Guðmundsson ritaði meðal annars um fallhlífastökk Hemma í Tímanum á sínum tíma:

Trúlega eru flestir sammála um að Hemma Gunn hafi tekist vel upp í þættinum sínum síðasta vetrardag. Margir voru forvitnir að sjá hvernig hann myndi fleyta sér yfir vandræðalega augnablikið í upphafi, þegar þjóðin beið með öndina í hálsinum eftir útskýringu frá honum á forföllunum í næstsíðasta þættinum. Flestir töldu víst einsýnt að Hemmi kæmi með eitthvað meira en viðtalið í Dagsljósi þar sem hann gerði, af aðdáanlegu hispursleysi, grein fyrir veikleika sínum gagnvart áfengi.

Og Hemmi sveik engan. Þegar Unnur Steinsson birtist í stjórnandasætinu en ekki Hermann tók áhorfendaskarinn andköf fyrir framan sjónvarpstækin og spurði: „Er Hemmi dottinn aftur?“ En svo var auðvitað ekki, þetta var bara létt grín hjá Hemma, sem fékk menn undir eins til að fyrirgefa fyrri forföll með því að mæta á svæðið með enn stórfenglegri hætti en áður — hann sveif inn í þáttinn úr háloftunum fyrir ofan höfuðborgina í fallhlíf og aubvitað í beinni útsendingu.

Í Helgarblaði DV árið 1997 birtist viðtal við Hemma Gunn sem þá hafði verið tekinn af dagskrá Rúv með Á tali hjá Hemma Gunn. Þar ræddi hann meðal annars um það þegar hann mætti ekki.

- Auglýsing -
Hemmi Gunn með epískt bindi.
Mynd: YouTube-skjáskot

Þegar hann mætti ekki

Hemmi hefur til margra ára ekki verið að fela þá staðreynd að hann eigi við áfengisvandamál að stríða. Hefur ólíkt mörgum öðrum getað tjáð sig opinskátt um áfengið en fyrir vikið verið stöðugt á milli tannanna á fólki. Ótrúlegustu sögur fóru t.d. á kreik þegar hann mætti ekki í einn þáttinn og Vala Matt var fengin í hans stað. „Ég var búinn að vera með um hundrað þætti í átta eða níu ár þegar kemur þáttur sem ég mæti ekki til
leiks. Það þætti á flestum stöðum ekki tíðindum sæta ef maður mætir ekki í vinnuna í einn dag á tæpum tiíu árum. Þetta var um páska og ég orðinn yfirkeyrður. Var búinn að undirbúa þáttinn allan þegar ég gleymdi mér og fékk mér í glas. Ég var ekki með það góða heilsu til að stjórna þessum þætti og Vala hljóp í skarðið af röggsemi og myndarbrag. Sögurnar fóru af stað og ég átti að hafa gert ótrúlegustu hluti, sem því miður bitna á börnunum mínum. Ég held að ég sé fyrsti maður sem þurfti að mæta í Dagsljós til að svara fyrir það að hafa drukkið vín. Það gerði ég eingöngu barnanna minna vegna því þau voru farin að fá ótrúlegustu sögur frá foreldrum skólasystkina sinna. Þau vora óvarin en ég orðinn brynjaðri.

Eðlilega hefði ég átt að fá gula spjaldið fyrir að mæta ekki til leiks en síðdegis þann dag sem þátturinn var sýndur fékk ég risablómvönd með undirskrift hvers einasta starfsmanns Sjónvarpsins með óskum um skjótan bata. Þetta var hlutur sem ég kunni að meta,“ segir
Hemmi og hugsar hlýtt til fyrrum
samstarfsmanna sinna.

- Auglýsing -

Sjá má brot úr þættinum sem Vala Matt stýrði í fjarveru Hemma hér.

Baksýnisspegill þessi birtist fyrst 1. júní 2022.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -