Eigandi fyrirtækis á höfuðborgarsvæðinu var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur af ákæru vegna meintrar nauðgunar fyrir átta árum. Konan sem um ræðir kærði manninn í kjölfar sáttafundar sem haldinn var fjórum árum eftir meint atvikið. Starfsfólk fyrirtækisins fór í stefnumótunarferð árið 2015. Hópurinn gisti á hóteli.
Manninum var gefið að sök að hafa farið inn á hótelherbergi þar sem konan lá sofandi. Þar hafði hann að sögn afklætt sig, farið upp í rúm til konunnar og lagst ofan á hana. Konan lýsti atvikum þannig að hann hefði haldið henni fastri, þuklað á líkama hennar og kysst hana. Þá hafi atvinnurekandinn sett fingur í nokkur skipti inn í leggöng sín og reynt að þröngva sér inn á meðan hún barðist á móti.
Ríkisútvarpið segir frá því að fyrir dómi hafi konan lýst því að hún hefði farið snemma að sofa um kvöldið. Árla morguns hefði maðurinn komið inn á hótelherbergi hennar. Hún sagði hann hafa ítrekað sagt hluti við sig eins og „veistu ekki hver ég er?“. Hún sagði athæfið hafa staðið yfir í um hálfa til eina klukkustund. Að lokum hafi maðurinn hálfpartinn gefist upp. Í kjölfarið sagðist konan hafa leitað til samstarfskonu sinnar og sagt henni frá atvikinu.
Suðað um kynlíf
Maðurinn neitaði sök en viðurkenndi að hafa farið inn á hótelherbergi konunnar, sem hefði verið ólæst. Hann hafði ímyndað sér að hún hefði gefið honum undir fótinn yfir daginn. Atvinnurekandinn sagðist átta sig á því að það hefði verið rangt og framkoman hefði verið dómgreindarbrestur af hans hálfu.
Maðurinn viðurkenndi að konan hafi strax gert honum grein fyrir því að hann væri ekki velkominn. Hann hefði engu að síður reynt að fá hana til kynlífs með því að suða í henni. Hann sagði engar snertingar hafa átt sér stað en að hann hefði farið úr jakka, skóm og buxum og lagst upp í rúm og sofnað.
Fyrir dóminum sagðist hann hafa skammast sín mikið fyrir atvikið og beðið konuna afsökunar á og að hún hefði fallist á afsökunarbeiðni hans. Þau hefðu unnið áfram saman í fjögur ár eftir þetta og ekkert hefði skyggt á samskipti þeirra. Hann hafði ákveðið að fara á skrifstofuna til konunnar og beðið hana að tala við sig í einrúmi þar sem hann hefði aftur beðið hana afsökunar. Þá hafi hún sagt að þetta væri ekkert stórmál. Hann hefði því talið að þar með væri málinu lokið. Konan sagðist hafa tekið við fyrri afsökunarbeiðni mannsins í gegnum síma en að hún hefði verið í opnu vinnurými og átt erfitt með að tala og lítið annað getað gert en að fallast á afsökunarbeiðnina. Hún hefði síðan reynt að loka á atvikið.
Fyrir dómi sagði konan að maðurinn hefði komið til hennar þegar Metoo-umræðan hefði komið upp og beðist afsökunar á ný. Hann hefði hins vegar ekki virst hafa áhyggjur af líðan hennar. Þetta hefði komið henni á óvart og henni hefði fundist hún ekki geta annað en sagt að þetta væri í lagi.
Dómurinn taldi að af gögnum málsins að dæma og gegn neitun mannsins hvorki vera sannað svo hafið verði yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um nauðgun eða tilraun til nauðgunar. að loka á atvikið
Dómurinn taldi framburð ákærða og vitna ekki sanna að maðurinn hafi gerst sekur um nauðgun eða tilraun til nauðgunar.
Kröfu konunnar um miskabætur að fjárhæð fimm milljónir króna var hafnað og sakarkostnaður felldur á ríkissjóð.