„Þegar við vorum þarna utarlega í rennunni finn ég bara að það kemur alda undir bátinn. Og hún hendir okkur út og við lendum á skeri,“ segir Vilbergur Magni Óskarsson, sem lenti í háska þegar hann var stýrimaður á humarbátnum Jóhanni Þorkelssyni ÁR frá Eyrarbakka. Segir hann frá strandinu í nýjasta viðtali Reynis Traustasonar í hlaðvarpsþættinum Sjóarinn.
„Það var ekkert slæmt veður en það var svolítið brim. Þetta var eldsnemma að morgni í byrjun júlí,“ segir Vilbergur er hann rifjar málið upp. „Ég var búinn að taka landstímið og fer svo og hendi mér á bekkinn í smástund. Svo kemur strákur, annar vélstjórinn þarna aftur í og kallar að við séum að vera komnir inn að beygju, það er að segja beygju að innsiglingunni á höfninni á Eyrarbakka. Stuttu síðar strandaði báturinn.
„Ég fer þarna fram og báturinn er alveg kominn á hliðina.“ Vilbergur sér að báturinn er kominn langt út fyrir innsiglingamerkjunum. „Það ræðst ekki neitt við neitt, báturinn er bara strandaður.“
Þegar þarna var komið við sögu þurfti skipstjórinn að taka ákvörðun um framhaldið.
„Eftir smá umhugsun hjá skipstjóranum þá segir hann: „Við verðum bara að ná í bátinn“, og átti þá við björgunarbátinn,“ útskýrir Vilbergur.
Skipstjórinn var mjög yfirvegaður og kallaði í Vestmannaeyjaradíó og bað um hjálp.
„Hann lét bara vita að við erum strandaðir og þyrftum sennilega að láta ná í okkur. Það braut svolítið á okkur og við vildum ekkert vera að bíða. Svo við fórum, ég og vélstjórinn upp á stýrihússþak að ná í björgunarbátinn. Eins og var á þeim tíma var báturinn kyrfilega bundinn ofan í trékistu þar. Eftir smá barning náðum við að losa hann og henda honum í sjóinn og blása hann upp. Svo komum við okkur í bátinn, það var ekki eftir neinu að bíða. Það var helvítis brim en við lokuðum bara tjaldinu á bátnum og svo rak okkur bara í gegnum brimið og upp í fjöru.“
Þegar Vilbergur og félagar hans fundu að þeir voru komnir í land fóru þeir úr bátnum en þá mæta þeir strákum sem koma hlaupandi til þeirra en þeir höfðu komið þarna kvöldið áður og voru að fara að landa. Þeir spurðu skipbrotsmennina um aflabrögð.
„Það fyrsta sem þeir segja er „Jæja strákar, eruð þið að fá hann?“,“ sagði Vilbergur og hló.
En þó að allir hafi sloppið heilir frá skipsbrotinu hafði það áhrif á suma skipverjanna til frambúðar.
„Menn voru mishvekktir eins og gengur þegar menn lenda í svona. Það voru einhverjir þarna sem voru með mér sem voru ekki alveg sáttir við þetta og voru lengi að jafna sig.“ Sumir hættu á sjó eftir þetta.
Seinni hluti viðtalsins við Vilberg birtist næstkomandi miðvikudag. Smelltu hér til að sjá fyrri hluta þáttarins í heild sinni.