Tónlistarkonan Sólveig Matthildur, sem hefur gert garðinn frægan með hinni vinsælu hljómsveit Kælan Mikla, sendi nýlega frá sér plötuna Constantly in Love.
Platan er undir áhrifum frá trip hop-hljómsveitinni Portishead, svartmálmssveitinni Urfaust og frönsku hljómsveitinni Hante, en David Fricke hjá tónlistartímaritinu Rolling Stone hefur líkt Sólveigu við þýsku tónlistarkonuna Nico, sem er einna þekktust fyrir að hafa komið að gerð „Banana-plötunnar“ með Velvet Underground.
Nokkrir góðir gestir koma fram á plötunni, þar má nefna Deb Demure, post-pönklistamanninn Some Ember og síðan Hante sem á eitt „remix“ á plötunni. Sólveig Matthildur ætlar að fagna útgáfunni rækilega á Gauknum í dag, laugardaginn 16. mars, og mun þá flytja plötuna í heild sinni. Tónleikarnir hefjast klukkan 21.
Kanadíska útgáfufyrirtækið Artoffact Records gefur út Constantly in Love en platan kemur í verslanir 19. apríl og verður fáanleg á vínyl, geisladisk og á öllum helstu streymisveitum heims.