Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Sátu fastir í þurrkví í þrjá daga: „Svona eftir á að hyggja þá var þetta alveg stórhættulegt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vilbergur Magni Óskarsson er fyrrum skólastjóri Skipstjórnarskóla Tækniskólans, sem áður nefndist Stýrimannaskólinn segir frá því er hann vann hjá Landhelgisgæslunni, í viðtali í hlaðvarpsþættinum Sjóarinn.

„Þetta var dráttarbátur sem var að draga þurrkví frá Skotlandi til Hafnarfjarðar. Við fáum fyrst beiðni um að hjálpa bátnum að ná aftur kvínni en hann hafði misst hana aftan af sér, ég veit ekki hvað hann var búinn að vera lengi að draga hana þegar hann missti hana en það spólast út af spilinu hjá þeim, eitthvað svoleiðis. Misstu vírinn út. Og þeir náðu ekki endanum aftur, þeir komust ekki um borð í kvína til að gera neitt. Þeir voru búnir að rembast við þetta í einhverja daga áður en þeir biðja um aðstoð.“

Þegar Vilbergur og félagar mæta á staðinn á varðskipinu Óðni, byrja þeir á að sigla í kringum þurrkvína og reyna að átta sig á hvernig hægt sé að snúa sér í þessu. „Það var svona aðeins kaldi en samt ekkert slæmt veður þannig. Hún var þannig að það var opið í afturendan þar sem er siglt inn en lokuð að framan. Þannig að hún sigldi bara undan vindinum, bara eins og skúta.“

Eftir svolitla skoðun var ákveðið að best væri að reyna að komast upp á kvína að aftanverðu. „Það var pínu erfitt að eiga við það en þegar við vorum búnir að horfa á þetta í ákveðin tíma ákváðum við að reyna þetta. Og það tókst, við komumst um borð í hana,“ sagði Vilbergur en þeir voru nokkrir sem fóru um borð. „Þeir fóru um borð og við höfðum tengt í vír sem var aftan í kvínni, höfðum tengt okkar dráttarbúnað þar í. Og haldið við hana og dregið hana aftur á bak í rauninni. Þannig að dráttarbúnaður bátsins sem var framan í henni var í svona hanafæti og hann lá alltaf undir kvínni, þess vegna náðu þeir aldrei á hann.“

Eftir dágóða stund var búið að ráða fram úr þessu með hanafótinn og báturinn gat haldið áfram að draga kvína til Hafnarfjarðar. Vilbergur og félagar hans á varðskipinu ákváðu þá á að skilja við dráttarbátinn og halda áfram sínu eftirlitsstarfi. En nokkrum dögum síðar dróg aftur til tíðinda en þá barst Gæslunni boð um að dráttarbáturinn hafi aftur misst kvína en þeir höfðu verið komnir upp yfir Reykjanesið og voru þá fyrirmælin þau að nú skyldi varðskipið sækja kvína. Að sögn Vilbergs var kvíin komin á rek í vestur átt en varðskipið Ægir var einnig kallað til aðstoðar. Þegar Vilbergur og félagar koma að kvínni var veðrið orðið leiðinlegt og hafði ýmislegt gengið á en til dæmis var annar kraninn sem var á kvíarveggnum dottinn af og lóðin sem voru aftan á honum sem mótvægi við kranann hafði dottið inn í kvína og gert gat á botninn.

Vilbergur lýsir því fyrir Reyni hvernig áhafnirnar báru sig að við að reyna að tryggja að hægt væri að draga kvína en þegar nokkrir menn eru komnir um borð í kvína kom babb í bátinn, ef svo má að orði komast. „Og við vorum rétt byrjaðir að draga en þá var aftur komið leiðindarverður þannig að við þorðum ekki að taka karlana frá borði. Þeir voru um fimm til sex menn um borð í kvínni. Og það sem gerðist líka var það að þegar við vorum komnir með kvína upp í vind og öldu, þá kemur svolítið ólag framan á hana og pallurinn sem mennirnir höfðu staðið á brotnar niður. Þeir voru bara nýfarnir inn og höfðu lokað á eftir sig þegar ólagið kom á kvína og pallurinn leggst niður.“ Reynir spurði Vilberg hvort einhver aðstaða hafi verið fyrir mennina í kvíni en því svarar Vilberg: „Þetta var allt bara kalt, ekkert rafmagn eða neitt. En það eru einhverjir klefar þarna fyrir áhafnir, þetta er svokölluð kafbátakví, þannig að það var greinilega aðstaða þar fyrir áhafnir og svoleiðis. En þeir gátu ekkert nýtt sér það. Þegar það var fyrirséð að þeir yrðu að vera þarna eitthvað, þá fóru þeir upp í stjórnstöð upp á öðrum kvíarveggnum og komust þar inn. Þar var hægt að vera þó það hafi ekki verið nein aðstaða. Og svo var farið að huga að því að koma í gang ljósavél sem var þar um borð til að fá eitthvað rafmagn og einhvern hita. Það var gervihnattasími um borð í Ægi þannig að þeir gátu hringt í þá sem áttu kvína og fengið leiðbeiningar um það hvernig ætti að bera sig að.“

- Auglýsing -

Þetta tókst hjá þeim og fengu þeir ljós og hita upp í rýmið sem þeir biðu í. Áhafnarmeðlimir Ægis útbjuggu síðan dunk með teppum og mat og fleira nauðsynlegt til að koma yfir til mannanna sem voru fastir í kvínni. „Svo skutu þeir línu aftan í kvína og þeir náðu að draga til sín þennan dunk með matarleyfum og svoleiðis,“ sagði Vilbergur hlæjandi. Eftir um þrjá sólarhringa tókst að koma mönnunum úr kvínni með því að kasta til þeirra línu sem þeir kræktu framan á gallann sinn. „Svo var bara siglt á ferð og þeim bara kippt út. Þeir hoppuðu bara,“ útskýrði Vilbergur og hló. „Af því að það er svo mikið sog undir henni að aftan.“

Viðurkennir Vilbergur að staðan var varasöm á tímabili. „Svona eftir á að hyggja þá var þetta alveg stórhættulegt.“

Viðtalið í heild sinni er að finna hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -